Viðskipti erlent

SÍ kallar eftir gjaldeyri og varar við utanmarkaðsviðskiptum

Enn gengur hvorki né rekur hjá Seðlabanka Íslands að koma á gjaldeyrisviðskiptum við erlenda banka. Af þeim sökum hefur SÍ gripið til þess ráðs að biðla til þeirra sem eiga gjaldeyri að koma með hann á tilboðsmarkað bankans. Jafnframt varar bankinn við utanmarkaðsviðskiptum með gjaldeyri.

„Ætla má að unnt sé að auka veltu og styrkja verðmyndun á tilboðsmarkaðnum. Í því skyni eru útflytjendur og aðrir sem eiga gjaldeyri eindregið hvattir til að bjóða hann til sölu á þeim vett­vangi. Þeir geta snúið sér til fjármálafyrirtækja sem eiga viðskipti við Seðla­bankann og falið þeim að koma tilboðum sínum á framfæri," segir í tilkynningu um málið á heimasíðu bankans.

Jafnframt segir að verðmyndun utan tilboðsmarkaðar er til þess fallin að seinka heilbrigðum viðskipta­háttum með gjaldeyri og skaða tilraunir til að koma þeim í eðlilegt horf. Auk þess eru utanmarkaðsviðskipti ógagnsæ og áhættusöm.

Seðlabankinn kom upp svonefndum tilboðs­markaði fyrir gjaldeyri eftir að bankarnir hrundu og hefur sett 25 milljónir evra á hann daglega. Jafnframt hefur bankinn opnað safnreikninga fyrir útflytjendur en það hefur það hefur borið takmarkaðan árangur. Ástæðan er sú að erlendir bankar treysta einfaldlega ekki Seðlabankanum eftir að bankakerfið íslenska hrundi til grunna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×