Viðskipti innlent

Ekki mátti sekta Atorku

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Kauphöllin mátti ekki veita Atorku Group opinbera áminningu og beita févíti haustið 2006, samkvæmt dómi Hæstaréttar.

Kauphöllin taldi hálfsársuppgjörstilkynningu Atorku 30. ágúst 2006 ekki í samræmi við reglur. Í septemberlok birti Atorka aðra tilkynningu, en fékk svo áminningu Kauphallarinnar og sekt upp á 2,5 milljónir króna.

Atorka vann mál gegn Kauphöllinni í héraðsdómi í desember í fyrra, en Kauphöllin áfrýjaði til Hæstaréttar. Kristín Edwald, lögmaður Atorku í málinu, segir félagið fagna niðurstöðunni. Skaðinn sé hins vegar skeður því rúm tvö ár séu síðan áminning félagsins var birt á vef Kauphallarinnar þar sem fjárfestar nálgist upplýsingar um skráð félög.

„Við teljum að dómurinn sýni að reglur Kauphallarinnar fyrir útgefendur séu óskýrar og málsmeðferðin óásættanleg. Atorka fékk til að mynda ekki tækifæri til að andmæla áminningunni eða bregðast við að öðru leyti áður en hún var birt,“ segir Kristín.

Samkvæmt dómnum á Kauphöllin að birta niðurstöðuna á vef sínum og endurgreiða með vöxtum sekt Atorku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×