Viðskipti innlent

Hækkun stýrivaxta breytir litlu um útflæði fjármagns

Ljóst er að sú hækkun stýrivaxta sem framkvæmd var 28. október síðastliðinn upp í 18% breytir ein og sér litlu um líklegt fjármagnsútflæði þegar höftum á gjaldeyrismarkaði verður létt.

Meðalið þarf að vera sambland af stýrivöxtum, lausafjárstýringu, inngripum á gjaldeyrismarkaði og höftum á fjármagnsflutninga.

Þetta kemur fram í umfjöllun greiningar Glitnis um skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem birt var á vefsíðu Seðlabankans í morgun. „Ef þetta meðal virkar ekki til að létta af þrýstingnum á krónuna verður að heimila krónunni að aðlagast markaðsöflunum. Höftum á gjaldeyrisviðskipti vegna vöru- og þjónustuviðskipta verður létt fljótlega en höftum vegna fjármagnsflutninga þarf að halda í eitthvað lengri tíma," segir í Morgunkorninu

Eitt af markmiðum stefnu ríkisstjórnarinnar sem liggur til grundvallar lánveitingu AGS er að hindra frekara fall krónunnar með því að halda krónunni á floti og nota stýrivexti og til skemmri tíma höft á gjaldeyrismarkaði til að skapa stöðugleika í gengismálum. Þessi mikli fókus á krónuna endurspeglar hættuna á mjög neikvæðum áhrifum frekari falls krónunnar á stöðu fyrirtækja og heimila m.a. vegna mikilla verðtryggðra og gengisbundinna skulda þeirra.

Um þetta markmið stjórnvalda er rætt í skýrslu AGS. Þar segir að fjarað hafi undan fyrirkomulagi peninga- og gjaldeyrismála með falli bankakerfisins. Trúverðugleikinn minnkaði hratt og fall krónunnar varð að hruni. Gjaldeyrismarkaðurinn þornaði og fjárfestar flúðu í örugg bréf - aðallega ríkistryggð.

Verðbólgumarkmið Seðlabankans var ekki trúverðugt ankeri fyrir peningastefnuna sem kynti enn frekar undir fjármagnsflótta úr krónunni. Það var ljóst á þessum tíma í atburðarrásinni að hættan var á frekari fjármagnsflótta og falli krónunnar.

Erlendir aðilar voru með stórar stöður í krónunni og talsverðar líkur voru á að innlendir fjárfestar og innlánseigendur myndu missa trúna á gjaldmiðlinum þrátt fyrir ríkistryggingu innlána. Krónan stefndi því í frekara fall með þeim neikvæðu afleiðingum sem að framan eru nefndar. Á grundvelli þessa var það sameiginleg niðurstaða stjórnvalda og AGS að stöðugleiki krónunnar yrði að vera forgangsatriði stefnunnar.

Sjóðurinn telur að krónan muni styrkjast á næsta ári eftir kreppudrifið yfirskot. Samhliða ætti verðbólgan að hjaðna hratt. Varað er við að draga of hratt úr aðhaldinu í peningamálunum. Í ljósi þess hve stórt áfallið hefur verið gæti það tekið nokkurn tíma að byggja upp trúverðugleika á ný.

Nýlegar aðgerðir Seðlabankans hafi valdið ruglingi um hver sé stefnan í peningamálunum og að nú verði bankinn að leggja áherslu á að markmiðið sé að ná stöðugleika í krónuna og að náist það muni skapast skilyrði fyrir lækkun vaxta.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×