Erlent

Repúblikanar ráðast á Hillary rétt fyrir ræðu hennar

Repúblikanar rifjuðu fúslega upp ummæli Hillary Clinton í dag um að Barack Obama væri ekki reiðubúinn til þess að leiða Demókrata. Clinton, sem tapaði fyrir Barack Obama í forkosningum Demókrataflokksins heldur ræðu í landsþingi flokksins í Denver í kvöld. Er búist við því að hún muni hvetja stuðningsmenn sína á þinginu til þess að kjósa Obama en margir vilja enn kjósa hana til forsetaefnis.

Klofningurinn sem myndaðist vegna frekar jafnrar stöðu Obama og Clinton í forkosningunum hefur vakið óeirð innan Demókrataflokksins og eru margir hræddir um að vonsviknir stuðningsmenn Clinton kjósi John McCain, forsetaframbjóðanda Repúblikana. Þess vegna hefur verið lögð áhersla á flokkshollustu og sameinaðan Demókrataflokk.

Clinton sjálf hefur sagt að enginn vafi liggi á því að þetta sé landsþing Obama. Hún hefur hins vegar einnig sagt að hún ætli ekki að skipa stuðningsmönnum sínum fyrir hvern skuli kjósa, aðeins segja þeim að hún sjálf myndi velja Obama. Þar að auki hefur hún látið frá sér að þótt Obama eigi landsþingið þá finnist sumum fulltrúa hennar þeim bera skylda gagnvart þeim sem kusu þá á landsþingið í hennar nafni.

Nýjasta McCain auglýsingin í Bandaríkjunum nýtir sér ummæli Clinton frá kosningabaráttu hennar við Obama þar sem hún talar um að bæði hún og McCain hafi lífstíðarlanga reynslu til þess að færa með sér í Hvíta húsið en Obama hafi aðeins ræður frá árinu 2002. Hillary Clinton hefur látið frá sér að hún sé ekki hrifin af aðferðum sem þeim sem McCain beiti í þessari auglýsingu.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×