Viðskipti innlent

Segir að yfirlýsing um ESB aðild myndi gerbreyta efnahagsstöðunni

Greining Glitnis telur að bara yfirlýsingin ein um að Íslandi ætlaði að sækja um aðild að Evrópusambandinu myndi gerbreyta þeirri efnahagsstöðu sem landið er í nú.

Í Morgunkorni greiningarinnar segir að áhrifin af aðild að ESB og upptöku evrunnar yrðu víðtæk hér á landi. Ekki þyrfti að bíða eftir aðildinni sjálfri eftir þeim. Á grundvelli væntinga myndu markaðir bregðast skjótt við.

Þannig var það t.d. talið hafa haft umtalsverð áhrif til lausnar bankakreppunnar í Skandinavíu í upphafi tíunda áratugarins þegar Svíar og Finnar lýstu yfir vilja til að ganga inn í ESB þó svo að af inngöngunni yrði ekki fyrr en nokkru síðar.

Yfirlýsing íslenskra stjórnvalda um að stefnt væri að ESB aðild og upptöku evrunnar myndi þannig hafa áhrif strax. Er það umhugsunarefni öllum þeim sem greina stefnu hins íslenska fjármálamarkaðar en aðild myndi breyta vaxtaumhverfinu hér á landi til muna, stöðu myntarinnar að sjálfsögðu og öðrum grundvelli fjármálamarkaðarins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×