Viðskipti innlent

Askar Capital með hjáleið í stærri erlend lán

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Þórður Jónasson, framkvæmdastjóri fjármögnunarráðgjafar Askar Capital
Þórður Jónasson, framkvæmdastjóri fjármögnunarráðgjafar Askar Capital
Askar Capital hafa milligöngu um lán til sveitarfélaga og fyrirtækja frá erlendum bönkum. Bankinn varð Hafnarfjarðarbæ úti um erlent lán með 75 punkta skuldatryggingarálagi, sem er margfalt minna álag en á skuldabréf bæði ríkis og stóru bankanna. Ásókn í erlend lán eftir þessum leiðum fer vaxandi þar sem stóru viðskiptabankarnir eru tregir til að lána í erlendri mynt.

Aukin ásókn er í að fjárfestingarbankinn Askar Capital hafi milligöngu um lán í erlendri mynt hjá útlenskum bönkum. Þórður Jónasson, framkvæmdastjóri fjármögnunarráðgjafar hjá bankanum, segir um nýjung að ræða, sem fyrst og fremst skýrist af því að stóru viðkiptabankarnir hér hafi „verðlagt sig út af markaðnum" þegar kemur að lánum í erlendri mynt.

Í vikunni var greint frá láni upp á 25 milljónir evra (um 2,9 milljarðar króna) til þriggja ára sem Hafnarfjarðarbær tók að láni hjá erlendum banka fyrir milligöngu Aska. Askar Capital báðu átta erlenda banka á Evrópumarkaði að bjóða í lánið og varð nokkur samkeppni á milli þeirra.

Samkvæmt heimildum blaðsins eru kjörin mun betri en þau sem íslenskum bönkum og raunar ríkinu eru sögð standa til boða á bankamörkuðum um þessar mundir, eða 75 punktum yfir millibankavöxtum. Til samanburðar má nefna að á sama tíma er skuldatryggingarálag um 300 punktar á útgáfu ríkissjóðs og nálægt 1.000 punktum á skuldabréf Kaupþings.

Þórður segir bankann bjóða upp á milligöngu sem þessa fyrir fyrirtæki jafnt og opinbera aðila, en Askar sáu um verkefnastjórn, samninga og lögfræðiþjónustu í lántöku Hafnarfjarðar, auk þess að sjá um gjaldeyrisvarnir sem miði að því að hámarka virði lánsins í íslenskum krónum.

„Þetta er bara þjónusta sem við bjóðum upp, en má segja að henti ekki fyrir hvern sem er, heldur þarf þar að vera um að ræða fyrirtæki sem nýtur trausts, á sér góða sögu og tekur nægilega stórt lán til að standi undir umstanginu sem því fylgir að taka lán hjá erlendum banka," segir Þórður, en bætir um leið við að á meðan núverandi ástand ríki þar sem segja megi að íslenskir bankar séu í ónáð á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, sé ekki óeðlilegt að fyrirtæki og sveitarfélög sem á annað borð hafi aðgang að erlendum lánum og bönkum halli sér í auknum mæli í þá átt.

„Svo eru kjörin sem Hafnarfjörður fær líka ekki neinu samræmi við ástandið og umtalið sem er á mörkuðum, heldur fremur eins og fyrir kreppu."

Þórður segir að frá því Askar fóru af stað hafi þar markvisst verið byggð upp tengsl við erlenda banka. „Við erum því komin í þá stöðu að þegar inn kemur svona beiðni þá vitum við hvert við eigum að leita," segir hann, en bankinn vinnur nú að lántökum fyrir nokkra aðra opinbera aðila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×