Viðskipti innlent

Verðbólgumet í vændum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Á vaxtaákvörðunarfundi Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans og Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar, stinga saman nefjum á fundi í fyrra. Sjö ár eru síðan hér var tekið upp flotgengi krónu og verðbólgumarkmið.
Á vaxtaákvörðunarfundi Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans og Davíð Oddsson, formaður bankastjórnar, stinga saman nefjum á fundi í fyrra. Sjö ár eru síðan hér var tekið upp flotgengi krónu og verðbólgumarkmið. Fréttablaðið/Vilhelm
„Ekki kæmi á óvart að verðbólgan setji nýtt met á næsta ársfjórðungi en við búumst við að verðbólgukúfur sé framundan sem á rætur sínar aðallega að rekja til lækkandi gengis krónunnar undanfarnar vikur,“ segir í umfjöllun greiningardeildar Glitnis í gær.

Bankinn fjallaði um stjórn peningamála og verðbólguhorfur í tilefni af sjö ára afmæli peningamálastefnu Seðlabankans, en hann tók upp verðbólgumarkmið 27. mars 2001 um leið og krónunni var hleypt á frjálst flot. Hún varð um leið minnsti flotgjaldmiðill í heimi.

Verðbólgumarkmið Seðlabankans miðar við að halda tólf mánaða verðbólgu sem næst 2,5 prósentum.

Greiningardeild bankans bendir á að treglega hafi gengið hjá Seðlabankanum að halda markmiði.

„Á þessum tímamótum hafa stýrivextir hér á landi aldrei verið hærri og standa nú í fimmtán prósentum og eru hvergi hærri í hagkerfum með þróaðan fjármálamarkað að Tyrklandi undanskildu þar sem vextir eru 15,25 prósent. Undanfarin sjö ár hafa stýrivextir Seðlabankans verið að meðaltali níu prósent,“ segir í umfjöllun Glitnis, um leið og bent er á að verðbólgumarkmiði hafi ekki verið náð í nema um fimmtungi tímans síðan það var tekið upp, í átján mánuði af 84.

„Verðbólgan hefur undanfarin sjö ár verið að meðaltali 4,7 prósent, sem sagt hart nær tvöfalt verðbólgumarkmiðið“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×