Viðskipti innlent

Kaupþing frestar bókhaldi í evrum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Sigurður Einarsson Stjórnarformaður Kaupþings telur misráðið að lækka laun stjórnenda og stjórnarmanna stórra banka. Fremur ætti að gera vel við þá og tryggja sér þar með hæfasta fólkið.
Sigurður Einarsson Stjórnarformaður Kaupþings telur misráðið að lækka laun stjórnenda og stjórnarmanna stórra banka. Fremur ætti að gera vel við þá og tryggja sér þar með hæfasta fólkið. Fréttablaðið/Pjetur
Kaupþing hefur frestað því til næsta árs að breyta starfrækslumynt bankans í evrur og dregið til baka umsókn þar að lútandi. Ekki reynir á úrskurð fjármálaráðherra. Á aðalfundi bankans í gær samþykktu hluthafar að færa hlutabréf bankans yfir í evrur.

Breytingu starfrækslumyntar Kaupþings úr krónum í evrur hefur verið frestað þar til í janúar á næsta ári samkvæmt ákvörðun stjórnar. Þetta kom fram á aðalfundi bankans í gær. Bankinn hefur dregið til baka umsókn sína um breytinguna sem taka átti gildi í ár. Því reynir ekki á ákvörðun fjármálaráðherra varðandi stjórnsýslukæru sem bankinn lagði fram eftir að umsókninni var hafnað af Ársreikningaskrá.

Bankinn hefur þó langt því frá gefið upp á bátinn fyrirætlanir um að færa sig yfir í evrur. Aðalfundurinn samþykkti í gær að hlutafé bankans skyldi fært yfir í evrur. „Ríkisstjórn Íslanda vinnur ötullega að því að gera möguleg viðskipti með hlutabréf í erlendri mynt fyrir árslok.

Stjórnin telur því viðeigandi að breyta starfrækslumyntinni og hlutabréfaskráningunni á sama tíma,“ segir Sigurður Einarsson, stjórnarformaður bankans, en í ræðu hans á fundinum kom jafnframt fram að þrátt fyrir mikilvægi breytingar starfrækslumyntarinnar væri óvarlegt væri að gera of mikið úr henni, því bankinn beiti markaðsvörnum sem kæmu í veg fyrir að sveiflur á gengi krónunnar hefðu áhrif eiginfjárstöðu bankans.

Á aðalfundinum var stjórn bankans jafnframt heimiluð útgáfa breytanlegra skuldabréfa að upphæð 1,5 milljörðum evra, en slíkum bréfum má að skilyrðum uppfylltum breyta í hlutabréf, auk þess sem heimiluð var hlutafjáraukning til nýrra hluthafa upp á allt að 1.750 milljónir króna að nafnverði. Aðgerðirnar eru til að auka svigrúm við fjármögnun.

Kaupþing greiðir síðar í mánuðinum út arð til hlutafa upp á 14,8 milljarða króna, en það samsvarar 20 krónum á hlut, eða 21 prósenti af hagnaði síðasta árs.

Kaupþing fór ekki að fordæmi Glitnis sem á aðalfundi sínum fyrir nokkru tilkynnti um lækkun þóknunar stjórnarmanna og forstjóra. Hjá Kaupþingi fá stjórnarmenn greiddar 400 þúsund krónur á mánuði fyrir setuna og formaður stjórnar 800 þúsund krónur.

Í hádegisviðtali Markaðarins við Sigurð Einarsson á Stöð 2 í gær kom fram að honum finnst röng stefna að lækka laun stjórnar og stjórnenda, jafnvel þótt fjármálaskilyrði kölluðu á aðhald í rekstri bankans, en að því segir hann líka stefnt.

„Ef menn vilja hafa óháða, faglega og metnaðarfulla stjórnarmenn þá get ég ekki séð að umbun eigi að vera lægri en hún er.“ Í máli hans kom jafnframt fram að miðað við starfsmannaveltu mætti allt eins gera ráð fyrir að skorið yrði niður í mannahaldi Kaupþings um sem næmi allt að 150 stöðugildu, enda væri ljóst að skorið yrði niður hjá öllum bönkunum.

Sigurður hafnar því þó að krísa sé hjá Kaupþingi þótt erfiðleikar steðji víða að á fjármálamörkuðum. „Ég veit ekki um annan banka í Evrópu sem er í betri stöðu en Kaupþing hvað varðar laust fé,“ segir hann og bendir á að síðasta ár hafi arðsemi eigin fjár bankans numið 23,5 prósentum, vöxtur hafi verið góður og starfseiningar gangi vel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×