Viðskipti erlent

WaMu, áttunda stærsta bankastofnun Bandaríkjanna á barmi gjaldþrots

Útibú Washington Mutual
Útibú Washington Mutual MYND/AFP

Washington Mutual, WaMu, sem er stærsta „Savings and Loan" bankastofnun Bandaríkjanna, og áttunda stærsta bankastofnun landsins, hafa líkt og hlutabréf Lehman Brothers hrunið í verði undanfarna daga. Bréf félagsins höfðu fallið um 20 prósent fyrir opnun markaða, en síðan á mánudag hafa hlutabréf í WaMu lækkað um 45 prósent, og 93 prósent síðan í upphafi árs. Á sama tíma hefur skuldtryggingarálag WaMu rokið upp, og er nú komið í 2200 punkta.

Washington Mutual hefur orðið ílla úti í yfirstandandi fjármálakreppu, en fyrirtækið hefur tapað miklu á fasteignatryggðum skuldabréfum. Óttast er að bankanum muni ekki takast að afla nægilegs nýs fjármagns til að standa straum af stórfelldu tapi á útlánum. Undanfarið hafa orðið umtalsverðar mannaskiptingar hjá WaMu, en markaðir telja þó ekki að þær þó ekki nægja til að bjarga fyrirtækinu.

Tap Washington Mutual á öðrum ársfjórðungi var 3,3 milljarðar dollara. Talið er að tap bankans vegna útlánatapa muni slaga upp í 19 milljarða dollara fyrir árslok 2011.

Fyrr í vikunni tilkynnti WaMu um samkomulag við stjórnvöld um hert eftirlit með bankanum vegna bágrar stöðu hans. Það samkomulag er talið benda til þess að Washington Mutual sé á lista yfir þær bankastofnanir sem stjórnvöld telja að kunni að verða gjaldþrota.

Ef til þess kæmi að Washington Mutual yrði gjaldþrota myndi það verða stærsta bankagjaldþrot í sögu Bandaríkjanna, og margfalt stærra en gjaldþrot IndyMac fyrr í ár. Eignir IndyMac námu 32,2 milljörðum dollara, en það var annað stærsta bankagjaldþrot í sögu Bandaríkjanna. Samtals nema eignir Washington Mutual um 300 milljörðum.

Talið er líklegt að bandarísk stjórnvöld líti svo á að Washington Mutual séu of stórir til að bankinn megi verða gjaldþrota og að bankanum verði því komið til bjargar. Óvíst er þó hvort bandarísk stjórnvöld geti komið WaMu til bjargar, því nýlokið er stærstu björgunaraðgerð bandarískrar fjármálasögu, þjóðnýtingu Fannie Mae og Freddie Mac. Þá hefur athygli stjórnvalda að undanförnu beinst að vandræðum bandarískra bílaframleiðenda, en hugsanlegt er að ríkið verði að koma stóru bílaframleiðendunum í Detroit til bjargar.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×