Viðskipti innlent

Tilboðum um gjaldeyriskaup rignir yfir útflytjendur

Tilboðum um gjaldeyriskaup rignir yfir útflytjendur á sjávarafurðum um kaup á gjaldeyri og þá yfirleitt á hærra verði en viðkomandi gjaldeyrir er skráður á hjá Seðlabankanum.

Friðrik Arngrímsson framkvæmdastjóir LÍÚ segir að hann hafi heyrt fjölda af sögum um þetta en viti ekki til að neinn hafi tekið tilboðunum. Þá áréttar Friðrik að LÍÚ hvetji alla sína félagsmenn að skila gjaldeyri erlendis frá inn í Seðlabankann.

"Við sendum póst til okkar félagsmanna um þetta mál í vikunni þar sem þetta er áréttað," segir Friðrik. "Við viljum mjög gjarnan leggja okkar af mörkunum til að styrkja gengið með þessum hætti."

Sigríður María Þórðardóttir sérfræðingur hjá Seðlabankanum segir að hún hafi einnig heyrt sögur um kaup og sölu á gjaldeyri framhjá Seðlabankanum en geti ekki séð hvort slíkt sé umfangsmikið samkvæmt sínum gögnum.

"Það er skiljanlegt að menn hafi viljað fara hjáleiðir á síðustu vikum meðan þessi miklu vandræði voru á greiðslumiðluninni milli Íslands og annarra landa og menn voru kannski hræddir um að fé þeirra myndi frjósa inni í Seðlabankanum," segir Sigríður. "Hinsvegar eru málin komin í mun betra horf núna og menn geta verið alveg öruggir um að ef þeir setja gjaldeyri sinn inn í bankann núna eiga þeir greiðan aðgang að honum aftur."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×