Viðskipti innlent

Skilaboðaþjónn framtíðar kynntur

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Eric Figueras og Birkir Marteinsson, tveir stofnenda AmiVox, hafa unnið að því hörðum höndum að búa til verðugan arftaka sms-skilaboða sem samskiptaleið um farsíma. Á myndina vantar þriðja frumkvöðulinn, en að fyrirtækinu stendur líka Arnar Gestsson.
Eric Figueras og Birkir Marteinsson, tveir stofnenda AmiVox, hafa unnið að því hörðum höndum að búa til verðugan arftaka sms-skilaboða sem samskiptaleið um farsíma. Á myndina vantar þriðja frumkvöðulinn, en að fyrirtækinu stendur líka Arnar Gestsson. Markaðurinn/Anton
„Talmálið er framtíðin," segir Eric Figueras, spænskættaður frumkvöðull, sem með þeim Birki Marteinssyni og Arnari Gestssyni hefur komið á fót upplýsingatækni- og farsímafyrirtækinu AmiVox. Þeir hafa þróað og eru með í prófunum búnað í farsíma sem þeir binda vonir við að geti orðið smáskilaboðaþjónusta framtíðarinnar.

„Fólk losnar við innsláttinn og sendir raddupptökur. Það er fljótlegra, þægilegra og persónulegra," segir Eric stoltur, en blaðamaður getur vottað um þægindi þjónustunnar sem hann fékk að kynna sér sjálfur. „Svo erum við lausir við vandann sem kenndur hefur verið við fyrsta faxtækið, því með hugbúnaði okkar er hægt að senda skilaboð í síma sem ekki eru með búnaðinn," bætir Birkir við.

AmiVox-menn kynna nýjan skilaboðaþjón sinn á alþjóðlegu farsímaráðstefnunni Mobile World Congress, sem hófst á mánudag og lýkur á morgun, í Barcelona á Spáni. Virkni búnaðarins verður helst líkt við blöndu SMS og MSN-skilaboðaþjónustu netsins, þar sem áherslan er þó á talmálið. Þá felur tæknin í sér lægri símakostnað þar sem samskipti notanda eru við efnisveitu innanlands, sem svo sendir skilaboðin áfram yfir netið. „Við teljum að í þessu felist hagnaður fyrir alla, notendur jafnt sem símafyrirtæki, því með þessu kemur inn viðbótarþjónusta," segir Birkir.

AmiVox fékk nýverið styrk frá Tækniþróunarsjóði og segja forsvarsmenn fyrirtækisins það mikla viðurkenningu á gæðum hugmyndarinnar.

Í umfjöllun sjóðsins er kerfi AmiVox sagt munu valda byltingu fyrir efnisveitur í að koma efni sínu á framfæri. „Kerfið opnar nýjar dreifileiðir fyrir efni, opnar fyrir sendingar á efni sem ekki hefur verið hægt að senda í farsíma áður, lækkar tækniþröskuld fyrir allar efnisveitur verulega og getur sparað efnisveitum verulegar upphæðir. Kerfið mun auka verulega möguleika fyrir íslenskar efnisveitur á að koma sínu efni á framfæri erlendis, og fyrir íslensk farsímafyrirtæki að keppa á alþjóðamarkaði um ódýra skilboðalúkningu."

Í Barcelona segir Eric fyrst og fremst verið að kynna hugmyndina efnisveitum, en í mars verði opnað fyrir almenna notkun á kerfinu, sem enn er í prófunum. Grunnvirkni forritsins verður ókeypis, en svo geta notendur skráð sig fyrir fyrirframgreiddri viðbótarþjónustu kjósi þeir það. Þá geta þeir sem nota búnað AmiVox sent félögum sínum hlekk í niðurhal á búnaðinum í eigin síma. Ekki er því loku fyrir það skotið að vöxtur verði nokkuð hraður hjá AmiVox nái skilaboðaþjónusta þeirra að slá í gegn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×