Viðskipti innlent

Ölfusvatnið á Óskarsverðlaununum

Jón svalar þorsta stjarnanna Átappað vatn undir merki Icelandic Glacial stóð kvikmyndastjörnum til boða sem sóttu Óskarsverðlaunahátíðina um helgina.
Jón svalar þorsta stjarnanna Átappað vatn undir merki Icelandic Glacial stóð kvikmyndastjörnum til boða sem sóttu Óskarsverðlaunahátíðina um helgina. Markaðurinn/Samsett mynd

„Við unnum Óskarinn,“ segir Jón Ólafsson, stjórnarfor­maður Icelandic Water Holdings, sem selur átappað lindarvatn úr Ölfus­inu víða um heim undir merkjum Icelandic Glacial.

Vatnið lá frammi á Óskarsverðlaunahátíðinni sem fram fór í Hollywood á sunnudagskvöld en gestum hátíðarinnar gafst áður en blásið var til uppskeruhátíðarinnar vestra kostur á að setja flöskur með vatninu úr Ölfusinu í gjafapoka ásamt annarri gjafavöru. Sérstaklega var vatnsins getið í fjölmiðlum víða um heim í gær og í fyrradag. Fjölmiðlar vitnuðu sérstaklega til leikstjórans Sergeis Bodrov frá Kasakstan, að hann hefði aldrei séð neitt þessu líkt. Bodrov var tilnefndur fyrir myndina „Mongol“ í flokki bestu erlendu mynda sem fátt tók heim annað en gjafavöruna.

Jón er afar ánægður með kynningu vatnsins vestra enda stórt skref að komast inn fyrir dyr kvikmyndaheimsins. Þar er hann síður en svo ókunnur en Jón hefur frá Skífu­árunum haldið vinfengi við Jim Gianopulos, nú forstjóra móður­félags 20th Century Fox-kvikmyndaversins. Í ofanálag hefur hann marg­sinnis sótt heim kvikmyndahátíðina í Cannes – hefur átt þar hús um árabil – og auglýsti vatnið þar með eftirminnilegum hætti fyrir þremur árum.

Jón segir veg Icelandic Glacial hafa vaxið mjög frá fyrstu dögum. Vörumerkið hafi styrkst mjög í sessi í Bandaríkjunum upp á síðkastið. Jafnvel ratað á hvíta tjaldið en flöskurnar verða í um fjörutíu kvikmyndum á árinu og í sjónvarpsþáttum á borð við Desperate Housewives. Íslenskir bíógestir geta nú þegar séð flöskur undir merkjum Icelandic Glacial í kvikmyndinni „27 Dresses“ sem er sýnd í bíóhúsum auk þess sem þeim mun bregða fyrir í nýjustu kvikmynd leikkonunnar Cameron Diaz, „What Happens in Vegas“, sem verður sýnd fljótlega.

„Flaskan er nú þegar í „treilernum“. Það er stórt skref út af fyrir sig,“ segir Jón Ólafsson, hress í bragði með árangurinn. Hann verður heiðursgestur á Íslenska markaðsdegi ÍMARK á föstudag og mun þar fara yfir sögu Icelandic Glacial og átöppunarverksmiðjunnar í Ölfusinu.- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×