Viðskipti innlent

Kaupþing hægir ferðina að sinni

Óli Kristján Ármannsson skrifar
á Kynningu Kaupþings Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri kynnti uppgjör bankans. Á fremsta bekk má sjá frá hægri Sigurð Einarsson, stjórnarformann bankans, Guðnýju Örnu Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra fjármálasviðs, Guðna Aðalsteinsson, framkvæmdastjóra fjárstýringar, og Ingólf Helgason forstjóra Íslandsstarfsemi bankans.
á Kynningu Kaupþings Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri kynnti uppgjör bankans. Á fremsta bekk má sjá frá hægri Sigurð Einarsson, stjórnarformann bankans, Guðnýju Örnu Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra fjármálasviðs, Guðna Aðalsteinsson, framkvæmdastjóra fjárstýringar, og Ingólf Helgason forstjóra Íslandsstarfsemi bankans. Fréttablaðið/Pjetur
Hagnaður hluthafa Kaupþings á árinu 2007 nemur 70.020 milljónum króna. Afkoman er tæpum 18 prósentum verri en árið áður þegar hagnaðurinn nam 85,3 milljörðum.

Þynntur hagnaður á hlut (en þá hefur verið reiknað inn í útistandandi hlutafé, svo sem vegna samninga um kauprétt) fer úr 123,4 krónum á hlut árið 2006 í 93,3 krónur á nýliðnu ári.

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings er engu að síður ánægður með uppgjörið, þrátt fyrir að viðsnúningur á fjármálamörkuðum hafi sett á það mark sitt.

Hann segir 23,5 prósenta arðsemi eigin fjár á árinu vel viðunandi. Í kynningu á uppgjörinu í höfuðstöðvum Kaupþings við Borgartún í gær kom fram að Hreiðar Már telur sérstakt fagnaðarefni að innlán sem hlutfall af heildarútlánum til viðskiptavina jukust verulega á árinu, fóru úr 29,6 prósentum í byrjun árs í 41,8 prósent við lok árs.

Hann segir að haldið verði áfram að auka hlutfall innlána í fjármögnun bankans, svo sem með eflingu og frekara landnámi innlánastarfsemi sem rekin er á netinu undir merkjum Kaupthing Edge.

Hreiðar segir að í ljósi erfiðra aðstæðna á fjármálamörkuðum verði áhersla bankans fremur á innri vöxt en stækkun. Engu að síður hafi bankinn augun opin gagnvart tækifærum sem upp kunni að koma. Hann segir lausafjárstöðu bankans góða.

Í vikunni féll Kaupþing frá yfirtöku á hollenska bankanum NIBC. Kaupþing á laust fé til að greiða útistandandi lán í 440 daga án þess að afla fjár á mörkuðum.

Þá segir Hreiðar ýmsar leiðir í fjármögnun bankans til skoðunar. Í viðtali við Markaðinn staðfesti hann einnig að í gangi væru viðræður við fjárfesta í Katar um aðkomu þeirra að bankanum, en þar lægi ekki fyrir niðurstaða enn.

Stjórn Kaupþings leggur til greiddur verði 14,8 milljarða króna arður vegna ársins 2007, eða sem jafngildi 20 krónum á hlut, eða 21 prósenti af hagnaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×