Viðskipti innlent

Til athugunar að lækka einkunn íslensku bankanna

Óli Kristján Ármannsson og Jón Skaftason skrifar
Kaupþing Í Kauphallartilkynningum gærdagsins gerði Moody‘s grein fyrir endurskoðun á lánshæfi bankanna.
Kaupþing Í Kauphallartilkynningum gærdagsins gerði Moody‘s grein fyrir endurskoðun á lánshæfi bankanna.
Lánshæfiseinkunnir stóru viðskiptabankanna eru í endurskoðun hjá matsfyrirtækinu Moody‘s. Tilkynnt var um þetta til Kauphallar eftir að ljóst var að yfirtaka Kaupþings á hollenska bankanum NIBC væri úr sögunni.

Kaupþing er nú með lánshæfiseinkunnina Aa3 en einkunnina C þegar kemur að fjárhagslegum styrkleika og horfur neikvæðar. Einkunnir Kaupþings komu fyrst til endurskoðunar þegar tilkynnt var um kaupin á NIBC síðasta sumar. Fram kemur í yfirlýsingu frá Moody‘s að ákvörðun Kaupþings um að hætta við yfirtökuna sé litin jákvæðum augum og hafi sérlega góð áhrif á lausafjárstöðu Kaupþings. Þrátt fyrir þetta sé ekki ástæða til að láta af endurskoðun á einkunnum Kaupþings.

Þá tilkynnti Moody‘s í gær að Aa3/C lánshæfiseinkunnir bæði Glitnis og Landsbankans væru til athugunar til mögulegrar lækkunar. Samhliða var skammtímaeinkunn bankanna, sem er P-1, staðfest.

Í Vegvísi Landsbankans er orð haft á hringlandahætti sem verið hafi í einkunnagjöf Moody‘s, en verði af lækkun lánshæfismats bankanna verður það í þriðja sinn sem fyrirtækið breytir einkunn íslensku bankanna á aðeins einu ári.

Í febrúar í fyrra var langtímalánshæfiseinkunn Kaupþings, Landsbankans og Glitnis hækkuð í Aaa (hæstu einkunn), í kjölfar breyttrar aðferðafræði. Breytingin sætti harðri gagnrýni og var hækkun bankanna dregin til baka að hluta í apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×