Viðskipti innlent

Þrýst á evruumræðu

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, segist lengi vel hafa verið hallur undir að taka hér einhliða upp evru
Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, segist lengi vel hafa verið hallur undir að taka hér einhliða upp evru Markaðurinn/Anton
„Í þessu endurspeglast sá sannleikur að einhliða upptaka evrumyntar skiptir engu máli. Það sem mestu máli skiptir fyrir fjármálafyrirtækin er bakhjarlinn,“ segir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra um nýja umfjöllun matsfyrirtækisins Moody‘s um lánshæfi ríkisins.

Í umfjöllun Moody‘s er á það bent að umsvif íslensku viðskiptabankanna utan landsteinanna séu orðið það mikil að þau gætu þrýst á lægri lánshæfiseinkunn ríkisins. Lægri einkunn myndi rýra kjör ríkisins við erlendar lántökur. Björgvin segir þetta þó fremur sett fram sem umhugsunarefni í umfjöllun Moody‘s en stórt vandamál.

„Íslenska ríkið er ágætlega í stakk búið til að takast á við þrengingar. En auðvitað blasir við að áframhaldandi vöxtur bankanna erlendis mun hafa áhrif á stöðuna. Í framhaldinu vakna spurningar um hvaða kostir eru í stöðunni.“

Kostina segir hann allnokkra, svo sem einhliða tengingu við evru, myntráð, einhliða upptöku evru eða aðild að Myntbandalagi Evrópu. „Alþjóðavæðing bankakerfisins gerir að verkum að íslenskt fjármálakerfi er miklu háðara sveiflum á alþjóðamarkaði en áður og við bætast gríðarleg umsvif bankanna erlendis,“ segir viðskiptaráðherra og telur skýrslu Moody‘s undirstrika mikilvægi þess að fara mjög vandlega yfir málin.

Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, tekur í svipaðan streng. „Ég held að það fyrirkomulag sem við höfum haft, að vera með sérmynt, á því sem ég held að sé minnsta myntsvæði í heimi, hafi gagnast okkur mjög vel á þeim tíma sem sjávarútvegur var hér langmikilvægasta atvinnugreinin. Hann er raunar enn mikilvæg atvinnugrein, en núna þarf að horfa til fleiri atvinnuvega, þar með talið fjármálakerfisins. Ég tel okkur betur borgið með einhverju öðru kerfi, en hvað það á nákvæmlega að vera er erfiðara að segja.“

Sigurjón segist lengi vel hafa verið hallur undir að taka hér einhliða upp evru. „En nú í seinni tíð hef ég hallast að því að skoða þyrfti hvort ekki ætti að ganga heldur lengra og verða raunverulegur partur af evrukerfinu. En spurningin er flókin og erfitt að segja hvaða leið er best út frá hagsmunum þjóðfélagsins,“ segir hann.

Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, hefur margsagt krónuna vera of litla mynteiningu. „En hún verður ekkert látin hverfa í snatri á einum til tveimur dögum, eða mánuðum. Samt er alveg ljóst að mínu mati að krónan er ekki framtíðargjaldmiðill,“ segir hann. Helsta punkt Moody’s segir Sigurður hins vegar vera að arðsemi bankanna sé lykilatriði fyrir lánshæfismat þjóðarinnar. „Á það held ég að menn ættu að horfa.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×