Viðskipti innlent

Evrunefnd viðskiptaráðherra tekin til starfa

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Jón Sigurðsson, sem er fyrrum ráðherra, seðlabankastjóri og alaðbankastjóri Norræna fjárfestingarbankans, segir evrunefndina ætla að vinna hratt og vel.
Jón Sigurðsson, sem er fyrrum ráðherra, seðlabankastjóri og alaðbankastjóri Norræna fjárfestingarbankans, segir evrunefndina ætla að vinna hratt og vel. MYND/GVA
Nefnd viðskiptaráðherra sem fara á yfir lagaumhverfi hér vegna evruskráningar hlutabréfa er tekin til starfa og hefur fundað einu sinni í liðinni viku.

Jón Sigurðsson, hagfræðingur og fyrrum ráðherra, seðlabankastjóri og aðalbankastjóri Norræna fjárfestingarbankans, sem fer fyrir nefndinni, segir að í henni verði markvisst unnið, enda eigi hún að ljúka störfum fyrir fyrsta mars næstkomandi.

„Við stefnum að sem einfaldastri og skjótastri niðurstöðu,“ segir hann og áréttar að viðfangsefni nefndarinnar sé ekki hvort leiðin skuli farin, heldur einungis að finna út úr því hvaða breytinga sé þörf til að hún sé fær og tryggja um leið öryggi greiðslukerfisins.

Auk Jóns eiga sæti í nefndinni Guðmundur Kr. Tómasson, staðgengill framkvæmdastjóra fjármálasviðs Seðlabankans og formaður samráðsnefndar um samskipti verðbréfamiðstöðva, Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur Seðlabankans, Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Helgi Sigurðsson, framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi fyrir hönd Samtaka fjármálafyrirtækja, Björg Finnbogadóttir, lögfræðingur hjá viðskiptaráðuneytinu, og Einar Sigurjónsson, forstjóri OMX Verðbréfaskráningar Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×