Viðskipti innlent

Gnúpur semur við lánardrottna

Jón Skaftason skrifar
Magnús Kristinsson og Þórður Már Jóhannesson. Samkomulag Gnúps við lánardrottna er til þess fallið að tryggja félagið fyrir erfiðum markaðsaðstæðum, segir í tilkynningu.
Magnús Kristinsson og Þórður Már Jóhannesson. Samkomulag Gnúps við lánardrottna er til þess fallið að tryggja félagið fyrir erfiðum markaðsaðstæðum, segir í tilkynningu. Vísir/Hari
Fjárfestingarfélagið Gnúpur hefur náð samkomulagi við lánardrottna um endurskipulagningu félagsins að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu. Þá hefur Pálmi Haraldsson, oft kenndur við Fons, keypt rúmlega sex prósenta hlut Gnúps í FL Group á tíu milljarða króna.

Yfirlýsing Gnúps kemur í kjölfar frétta af fjárhagslegum örðugleikum félagsins sem birst hafa í fjölmiðlum. Fram kemur í tilkynningunni að dregið hafi verið úr skuldsetningu Gnúps og helstu eignir seldar, þá verði starfsemi félagsins dregin saman. Samhliða hafi náðst samkomulag við lánardrottna um endurfjármögnun eftirstandandi skulda félagsins hjá viðskiptabönkum og samið um aðrar skuldir.

Aðgerðirnar eru sagðar hafa tryggt félaginu fjárhagslegan sveigjanleika til að mæta erfiðum markaðsaðstæðum. Undir yfirlýsinguna skrifar Þórður Már Jóhannesson, forstjóri.

Stærstu hluthafar í Gnúpi eru þeir Þórður Már, Magnús Kristinsson og Kristinn Björnsson, auk Birkis Kristinssonar, bróður Magnúsar og fyrrverandi landsliðsmarkvarðar í knattspyrnu.

Með kaupum sínum á hlut Gnúps í Glitni verður Pálmi Haraldsson næststærsti einstaki hluthafinn í Glitni, með rúmlega tólf prósenta hlut. Gnúpur heldur eftir rétt tæplega fjögurra prósenta hlut. Gengið í viðskiptunum var 12,1 sem er nokkuð yfir lokagengi FL Group í Kauphöllinni, en bréfin stóðu í ríflega 11,3 krónum við lokun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×