Viðskipti innlent

Lausafé Existu dugar út árið

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Ágúst Guðmundsson stjórnarmaður (lengst til hægri) og Erlendur Hjaltason, forstjóri Existu. Til vinstri glittir í Lýð Guðmundsson stjórnarformann.
Ágúst Guðmundsson stjórnarmaður (lengst til hægri) og Erlendur Hjaltason, forstjóri Existu. Til vinstri glittir í Lýð Guðmundsson stjórnarformann. Fréttablaðið/Valli
Aðgangur fjármálafyrirtækisins Existu að lausu fé nægir til að mæta endurfjármögnunarþörf félagsins nær allt árið, að sögn Erlends Hjaltasonar, forstjóra félagsins.

Gengi bréfa Existu hefur lækkað hratt síðustu vikur, nokkuð í takt við lækkanir á stærstu eignum félagsins erlendis. Samkvæmt útreikningi blaðsins nemur sú lækkun um þessar mundir nálægt 33 milljörðum króna. Í kjölfarið hafa vaknað spurningar um getu félagsins til að standa við að sölutryggja til hálfs væntanlegt hlutafjárútboð Kaupþings.

„Í áætlunum okkar tökum við að sjálfsögðu tillit til þeirra skuldbindinga sem Exista hefur tekist á hendur, til dæmis í væntanlegu útboði Kaupþings, jafnvel þótt fjárhæð þess hlutar sem mun falla Exista í skaut í útboðinu sé óviss á þessari stundu,“ segir Erlendur og bætir við að félagið leggi ríka áherslu á öfluga lausafjárstöðu.

„Aðgangur okkar að lausu fé í árslok mætir endurfjármögnunarþörf félagsins til næstu 50 vikna og eru þá ekki taldar með auðseljanlegar eignir.“ Hann bendir jafnframt á að endurfjármögnun á árinu nemi einungis um fjórðungi af heildarfjármögnun síðasta árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×