Viðskipti innlent

Sóttu 37 milljarða til Asíu og Evrópu

Óli Kristján Ármannsson skrifar
í Deutsche Börse Í Evrópu og víðar um heim er þess beðið að markaðir taki flugið á ný eftir óróatíð og lausafjárkreppu sem ekki sér fyrir endann á. Kaupþing sótti fyrir skömmu 300 milljónir evra til fjögurra banka í evrópsku sambankaláni. 
Nordicphotos/Getty Images
í Deutsche Börse Í Evrópu og víðar um heim er þess beðið að markaðir taki flugið á ný eftir óróatíð og lausafjárkreppu sem ekki sér fyrir endann á. Kaupþing sótti fyrir skömmu 300 milljónir evra til fjögurra banka í evrópsku sambankaláni. Nordicphotos/Getty Images
„Ef að því er gætt að hafa margar fjármögnunarleiðir og valkosti opna er hægt að sækja fé á viðráðanlegum kjörum,“ segir Guðni Aðalsteinsson, forstöðumaður fjárstýringar Kaupþings banka. Í desember sótti bankinn sem svarar um 37 milljörðum króna í tveimur sambankalánum, öðru í Asíu og hinu í Evrópu.

Að láninu í Asíu komu 12 bankar, en það var til þriggja ára upp á 160 milljónir Bandaríkjadala. Guðni segir kjörin í láninu ágæt, punktar yfir Libor millibankavöxtum. Að hinu láninu segir hann að hafi komið fjórir evrópskir bankar, en það var heldur stærra. „Þeir lánuðu okkur 300 milljónir evra til eins árs á 60 punktum yfir Libor-vöxtum, sem er líka stórgott,“ segir Guðni.

Vaxtakjör bankanna í skuldabréfaútgáfu versnuðu hins vegar heldur í gær samkvæmt tölum um skuldatryggingarálag á skuldabréf þeirra til fimm ára (CDS), en þetta álag getur sveiflast nokkuð dag frá degi. Við núverandi markaðsaðstæður hefur þetta álag hins vegar aukist á velflesta banka heims, en þykir hátt á útgáfu íslensku bankanna og gjarnan talað um íslenska álagið í því samhengi.

Í gærmorgun hafði álag á bréf Kaupþings aukist um 8 punkta milli daga, var 318 punktar, um 16 punkta á bréf Glitnis, var 238 punktar og um 9 punkta á bréf Landsbankans, en CDS-álag á þau var í gær 172 punktar. Meiri breyting á álagi á bréf Glitnis en hinna bankanna er rakin til fregna af mögulegri skuldabréfa­útgáfu sem í undirbúningi er í Bandaríkjunum hjá bankanum. Skuldatryggingarálagið hefur hins vegar hækkað jafnt og þétt á bréf bankanna frá áramótum, eða um nærri fimmtung. Mest er hækkunin álagsins rúm 26 prósent á bréf Landsbankans, rúm 11 prósent á bréf Kaupþings og rúm 19 prósent á bréf Glitnis

Hjá íslensku bönkunum eru á þessu ári um 6,5 milljarðar evra á gjalddaga, að því er fram kom í samantekt á viðskiptasíðu Fréttablaðsins 5. janúar. Upphæðin nemur nálægt 600 milljörðum króna. Skiptingin á milli stærstu bankanna er þannig að að hjá Kaupþingi eru 1,7 milljarðar evra langtímalána á gjalddaga á árinu, 764 milljónir evra hjá Landsbankanum og 2,2 milljarðar evra hjá Glitni, auk 1,1 milljarðs hjá dótturfélögum í Noregi. Hjá Straumi-Burðarási nema langtímaskuldir sem gjaldfalla á árinu 717 milljónum evra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×