Viðskipti innlent

Glitnir kannar hug fjárfesta vestan hafs

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Ingvar H. Ragnarsson, framkvæmdastjóri fjárstýringar Glitnis banka.
Ingvar H. Ragnarsson, framkvæmdastjóri fjárstýringar Glitnis banka.
Glitnir kannar í þessari viku aðstæður í Bandaríkjunum með hugsanlega skuldabréfaútgáfu í huga.

„Við erum á ferðalagi að hitta fjárfesta og sjáum svo bara hvað út úr því kemur,“ segir Ingvar H. Ragnarsson, framkvæmdastjóri fjárstýringar Glitnis banka.

Valdir voru þrír bankar vestra til að sjá um mögulega útgáfu fyrir Glitni, Barclays, Merrill Lynch og JP Morgan, en þeir sendu fyrir helgi frá sér tilkynningu um málið.

Ingvar segir ekki ólíklegt að ráðist verði í útgáfu vestra reynist fyrir því grundvöllur, en bankinn fjármagnar starfsemi sína meðal annars með alþjóðlegum skuldabréfaútgáfum sem þessum.

Hann segir að síðustu vikur og mánuði hafi lítið verið um útgáfur sem þessar í skugga lausafjárkrísu eftir undirmálslánavandræði í Bandaríkjunum.

„En á eðlilegum árum er alla jafna mest að gera í janúar og febrúar í nýjum lánum. Við ákváðum bara að vera snemma á ferðinni í að banka upp á hjá fjárfestum,“ segir Ingvar og bætir við að slíkar heimsóknir séu alvanalegar og reglulegur þáttur í starfsemi bankans, hvort sem útgáfa skuldabréfa standi til eður ei.

„Okkur finnst mikilvægt að vera sem oftast á ferðinni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×