Viðskipti innlent

Hluthafar Stork heimila sölu

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Forstjórarnir saman Hörður Arnarson, forstjóri Marel Food Systems og Theo Hoen, forstjóri Stork Food Systems, á kynningarfundi Marels vegna yfirtökunnar á Stork í nóvemberlok.
Forstjórarnir saman Hörður Arnarson, forstjóri Marel Food Systems og Theo Hoen, forstjóri Stork Food Systems, á kynningarfundi Marels vegna yfirtökunnar á Stork í nóvemberlok. Markaðurinn/GVA
Hluthafafundur Stork N.V. í Hollandi heimilaði á föstudag sölu Stork Food Systems til Marel Food Systems. Með heimildinni var brautin jafnframt rudd fyrir yfirtöku London Acquisition, sem að standa breski fjárfestingar­sjóðurinn Candover, íslenska fjárfestingafélagið Eyrir Invest og Landsbanki Íslands, á því sem eftir stendur af hollensku iðnsamstæðunni.

Í tilkynningu Stork um samþykktina kemur fram að hún sé því háð að yfirtakan verði lýst skilyrðislaus, en til þess þurfa meðal annars 95 prósent hluthafa að samþykkja yfirtökutilboðið, sem hljóðar upp á 48,4 evrur á hvern hlut í Stork. Yfirtökutilboðið rennur út 14. þessa mánaðar.

Í lok nóvember síðastliðinn gaf stjórn Stork því blessun sína að selja frá samstæðunni hluta starfseminnar og lýsti stuðningi við yfirtöku London Acquisition. Þá lá þegar fyrir stuðningur tæplega áttatíu prósenta hluthafa. Yfir­takan á Stork N.V. er metin á 1,5 milljarða evra, eða sem nemur hátt í 140 milljörðum íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×