Erlent

Áframhaldandi lækkun á hlutabréfum

Hlutabréf héldu áfram að lækka í Asíu og Evrópu í morgun annan daginn í röð í kjölfar mikillar lækkunar á kínverska hlutabréfamarkaðnum í fyrradag. Hlutabréfavísitölur á Norðurlöndunum lækkuðu töluvert og áhrif þessarar lækkunar mátti merkja hér á Íslandi annan daginn í röð.

Kínverski hlutabréfamarkaðurinn var sá eini í Asíu sem náði sér á strik í dag eftir tæplega níu prósenta lækkun í fyrradag en sú lækkun var sú mesta þar í landi í áratug. Aðrir markaðir um alla Asíu lækkuðu allt frá tæpum þremur prósentum í Japan niður í níu prósent á Filippseyjum.

Áframhald varð á lækkunum á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum og Dow Jones vísitalan lækkaði um 3,3 prósent. Hlutabréfamarkaðir á Norðurlöndunum lækkuðu og hér á Íslandi féllu hlutabréf annan daginn í röð. Vísitalan hefur lækkað um 5 prósent á tveimur dögum og íslenska krónan hefur veikst um 2,3 prósent á tveim dögum sem rekja má til þessarar alþjóðlegu lækkunar.

Þessi lækkun annan daginn í röð er talin eiga upptök sín í orðrómi um ofmat hlutabréfa í Kína og íhlutun kínverskra stjórnvalda um að aftra því að áhættufyrirtæki fengju bankalán. Lækkunina á bandarískum mörkuðum má meðal annars rekja til ummæla Alans Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóra Bandaríkjanna, um áhyggjur af niðursveiflu í kínverskum og bandarískum efnahagi. Þau orð urðu til mestu lækkunar á Wall Street síðan 11. september 2001.

Sérfræðingar hér á landi og erlendis tala um leiðréttingu þar sem talsverðar hækkanir hafi verið á mörkuðum víða um heim og bjartsýni hafi verið ríkjandi. Svo koma efasemdir um innistöðu þessa hækkanna og þá leiðrétti markaðurinn sig. Til að mynda hafi kínverski markaðurinn hækkað um 130 prósent á einu ári.

Sérfræðingar spá því reyndar að kínverski hlutabréfamarkaðurinn eigi eftir að jafna sig og forsætisráðherra Ástralíu, John Howard, reyndi að draga úr áhyggjum manna með því að minna á að miðað við mikinn og hraðan efnahagsvöxt í Kína hefði mátt búast við sveiflu af þessu tagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×