Viðskipti innlent

Greining Glitnis býst ekki við vaxtalækkun fyrr en í nóvember

MYND/Heiða

Greiningardeild Glitnis gerir ráð fyrir að Seðlabankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum við næsta vaxtaákvörðunardag, þann 5. júlí. Býst bankinn ekki við að vextir verði lækkaðir fyrr í nóvember og þá um 0,5 prósentu stig.

Í nýrri stýrivaxta- og gengisspá frá greiningardeildinni kemur fram verðbólgan hafi verið meiri en Seðlabankinn spáði í mars og líkur séu á að verðbólgan verði nokkuð yfir verðbólgumarkmiði næstu misseri. Þá bendi hagvísar til þess að einkaneysla hafi tekið nokkuð við sér á öðrum ársfjórðungi samfara hækkun eignaverðs og auknum kaupmætti. Þá sýni vinnumarkaðurinn nær engin merki um að farið sé að draga úr spennunni í hagkerfinu.

Glitnir bendir á að á móti sýni nýútkomnar tölur um landsframleiðslu á fyrsta ársfjórðungi að hagkerfið hafi staðið í stað milli ára og þá dragi ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar í þorskveiðum einnig úr væntingum um vöxt útflutningstekna á næstunni.

Reiknar greiningardeildin með að Seðlabankinn hefji vaxtalækkunarferli sitt í nóvember á þessu ári með 0,5 prósentustiga lækkun. Stýrivextir verði svo komnir í níu prósent í lok þess árs í stað átta í fyrri spá greiningardeildarinnar.

Greiningardeildin gerir ráð fyrir að gengi krónunnar haldist hátt líkt og nú svo lengi sem vaxtamunur miðað við útlönd minnkar ekki að neinu marki. Það verði því ekki fyrr en bratt vaxtalækkunarferli Seðlabankans tekur við að gengi krónunnar fer að lækka.

Gerir greiningardeildin ráð fyrir að gengi krónunnar gagnvart evru verði 95 krónur í lok næsta árs og að dollarinn verði kominn í 70 krónur. Krónan styrkist svo aftur á árinu 2009 þegar nýtt hagvaxtarskeið hefst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×