Viðskipti erlent

Tap á rekstri Össurar

Össur skilaði 184 milljóna króna tapi á fyrsta fjórðungi ársins 2007.
Össur skilaði 184 milljóna króna tapi á fyrsta fjórðungi ársins 2007.

Össur skilaði 2,7 milljóna bandaríkjadala tapi á fyrsta fjórðungi þessa árs. Það jafngildir um 184 milljónum króna. Afkoman var töluvert undir spám greiningardeilda bankanna sem gert höfðu ráð fyrir um 300 þúsund dala hagnaði. Á sama tímabili í fyrra nam hagnaðurinn 571 þúsund dala.

Sala fjórðungsins nam 80,4 milljónum dala, um 5,5 milljörðum íslenskra króna, og jókst um 34 prósent frá fyrsta fjórðungi ársins 2006.

Tímabilið litast af mikilli endurskipulagningu á sölu- og dreifingarkerfi Össurar í Bandaríkjunum. Það, auk slakari sölu en búist var við, skýrir tapið að mestu.

Í kjölfarið á birtingu uppgjörsins tilkynnti Össur um breyttar spár fyrir árið í heild. Eftir sem áður er gert ráð fyrir 330 milljóna dala sölu. Hins vegar hefur spá um rekstrarhagnað félagsins fyrir afskriftir (EBITDA) verið lækkuð úr 63 milljónum dala í 53 til 56 milljónir dollara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×