Viðskipti innlent

Reglur í vinnslu um stöðvun viðskipta í kauphöllinni

Engar sérstakar reglur eru um hvenær stöðva ber viðskipti í kauphöllinni ef bréf lækka eða hækka umfram það sem eðlilegt getur talist. Þórður Friðjónsson forstjóri kauphallarinnar segir að slíkar reglur séu í vinnslu hjá OMX.

"Við vinnum í augnablikinu eftir almennum starfsreglum sem gilda yfir OMX kauphallirnar," segir Þórður í samtali við Vísi. "Við getum stöðvað viðskipti tímabundið ef um óeðlilegar lækkanir eða hækkanir er að ræða. Þá leitum við fyrst til útgefenda og spyrjumst fyrir um hvort einhver frétt sé á leiðinni sem útskýrt geti málið."

Aðspurður segir Þórður að hann muni ekki í svipinn eftir jafnslæmri byrjun í kauphöllinni eins og í morgun. Hann nefnir þó að eitt sinn hafi úrvalsvísitalan fallið um 4,5% en það var eftir daginn. Þegar þetta er skrifað um hádegisbilið hefur vísitalan fallið um rétt tæp 4%. Þegar fallið var mest í morgun hafði vísitalan fallið um tæp 6%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×