Viðskipti innlent

Hannes segist hafa verið ódýr forstjóri

Hannes Smárason segist ekki hafa kostað FL Group nema 50 milljónir á ári.
Hannes Smárason segist ekki hafa kostað FL Group nema 50 milljónir á ári.

Hannes Smárason, fráfarandi forstjóri FL Group, segir í viðtali við Morgunblaðið að hann hafi verið ódýr forstjóri miðað við aðra forstjóra í sambærilegum fyrirtækjum. Hann segir laun sín hafa verið helmingi lægri, hann hafi enga bónusa fengið né kauprétti.

Hannes er spurður að því hvort kostnaður vegna forstjórans hafi verið óhóflegur og hann svarar að því fari fjarri og hallar sér yfir borðið til að leggja áherslu á orð sín eftir því sem fram kemur í viðtalinu.

"Ef þú horfir á fyrrverandi forstjóra FL Group, sem situr hérna við borðið, og svo forstjóra X, þú mátt velja þér nafn í það box, þú mátt velja þér nafn í það box, svo framarlega sem það er eitt af fimm stærstu fyrirtækjum á landinu, í hvers hópi við erum. Ef þú horfir á laun strípuð, þá var forstjóri FL Group með 4 milljónir á mánuði. En X myndi vera með í laun í kringum 80 til 90 milljónir á ári. Ef þú horfir á bónusa þá er forstjóri FL Group með núll en forstjóri X með aðrar 80 til 90 milljónir. Þannig að forstjórar stærstu félaganna hér á landi eru að leggja sig á 160 til 180 milljónir króna á ári en ekki tæpar 50 eins og ég gerði.

Ef þú horfir síðan á kauprétti, þá var forstjóri FL Group með með núll, forstjóri X með ... - köllum það einhverja milljarða," segir Hannes í viðtalinu.

"Ég tók þá ákvörðun strax að þegar ég varð forstjóri að semja um hóflegar greiðslur til mín fyrir þann þátt. Minn ávinningur var fyrst og fremst sá að vera fremstur meðal jafningja út frá hlutabréfaeign og þeim aðri sem félagið greiddi. Og það hefur greitt góðan arð. ég get ekki kvartað undan því að hafa ekki haft úr miklu að moða enda þótt ég hafi ekki einu sinni verið hálfdrættingur forstjóra stærstu félaga landsins í launum og þar að auki án bónusa þeirra og kauprétta," segir Hannes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×