Viðskipti innlent

Atorka Group langt yfir væntingum Stefnt að skráningu Promens í ár.

Fjárfestingafélagið Atorka Group (móðurfélag) skilaði 6.739 milljóna króna hagnaði í fyrra, þar af um 1.312 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi. Hagnaður jókst um 352 prósent á milli ára og nam arðsemi eigin fjár nam 69,2 prósentum.

Afkoma síðasta ársfjórðungs er töluvert yfir meðaltalsspá greiningardeilda Glitnis og Landsbankans sem var upp á 628 milljónir króna.

Móðurfélagið færir fjárfestingar í dótturfélögum á gangvirði en tekur ekki tillit til rekstrar hvers og eins félags.

Samstæða Atorku skilaði hins vegar 486 milljóna króna tapi eftir skatta en í þeim hluta uppgjörsins er beitt hlutdeildaraðferð þar sem rekstrarleg afkoma hvers og eins dótturfélags og afkoma móðurfélags, án endurmats á dótturfélögum, er lögð saman. Velta samstæðunnar var 31,6 milljarðar.

Heildareignir móðurfélags námu 43 milljörðum króna í árslok og eigið fé stóð í 17,2 milljörðum.

Meðal dótturfélaga eru Jarðboranir og Promens sem stefnt er að verði skráð á þessu ári.

Lagt er til að greiddur verði 45 prósenta arður af nafnverði hlutafjár fyrir síðasta ár sem svarar fimmtungi af hagnaði ársins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×