Viðskipti innlent

Byr býður fólki að kanna fjárhagslega heilsu

Ragnar Guðjónsson er sparisjóðsstjóri hjá Byr.
Ragnar Guðjónsson er sparisjóðsstjóri hjá Byr.

Sparisjóðurinn Byr breytist í „fjárhagslega heilsuræktarstöð" á nýársnótt og setur um leið í loftið rafrænt heilsustöðupróf í fjármálum á heimasíðu sinni og býður þannig öllum landsmönnum aðstoð við að finna út sína fjárhagslega heilsu og þol.

Í tilkynningu frá Byr segir að fjárhagslega heilsuprófið sé ætlað öllum sem náð hafa 18 ára aldri, hvort sem þeir eru í góðu fjárhagslegu formi eða ekki. Því allir geta bætt sína fjárhagslegu heilsu og aukið sitt fjárhagslega þol hvort sem þeir eru viðskiptavinir Byrs eða ekki. Markmið Byrs með hinni nýju fjárhagslegu heilsurækt er að stuðla að bættri fjárhagsstöðu heimilanna í landinu. Þessi nýja persónulega þjónusta er í samræmi við yfirlýst markmið Byrs um ríka samfélagslega ábyrgð.

„Þetta er hluti af persónulegri ráðgjöf og þjónustu sem spariðsjóðurinn hefur verið að veita. Fólk tekur þarna próf þar sem það svarar spurningum um fjárhagslega heilsu sína, eins og við kjósum að kalla það," segir Ragnar Guðjónsson, sparisjóðsstjóri hjá Byr.

Ragnar segir að í prófinu svari fólk spurningum sem snerta fjárhagslegt öryggi þess. Svo sem hvort það sé fyrirvinna heimili síns eða reiði sig á aðra. Hvort það hafi eignir sínar tryggðar, hvort það sé líftryggt og hvort það leggi í sparnað. „Síðan getur fólk áttað sig á því hvaða þætti það þarf að huga betur að," segir Ragnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×