Viðskipti innlent

Stýrivaxtaákvörðun hefur jákvæð áhrif á hlutabréfamarkað

Ákvörðun Seðlabankans um að halda stýrivöxtum óbreyttum hefur jákvæð áhrif á hlutabréfamarkaðinn en komandi kjarasamningar gætu sett strik í reikninginn.

Ákvörðun bankastjórnar Seðlabankans var kynnt á fundi í morgun. Þrátt fyrir að verðbólguhorfur til skamms tíma hafi versnað og lítið dregið úr spennu á vinnumarkaði telur bankinn fyrirsjáanlegt að vaxtahækkanir í síðasta mánuði, minnkandi framboð lánsfjár og lækkandi fasteignaverð muni vinna með peningastefnu bankans til langs tíma litið. Því hafi verið ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 13,75 prósentum.

Þá réð óróleiki á fjármálamarkaði miklu um ákvörðun bankastjórnar en hlutabréf hafa lækkað verulega í verði í Kauphöllinni að undanförnu.

Davíð Oddsson seðlabankaastjóri segir það miður að ýmsir þeir sem hafa verið að ganga nokkuð langt í að koma sér upp hlutabréfaeign hafi seilst til þess að gera það með þungum lántökum og slíkir aðilar séu ýmsir illa settir um þessar mundir. Það þrengi einnig að og þess vegna hljóti menn að horfa til allra þessara þátta núna þegar menn velti fyrir sér hvers konar spenna verður í efnhagslífinu.

Bankinn telur að með óbreyttum stýrivöxtum megi ná 2,5 prósenta verðbólgumarkmiðinu um miðbik árs 2009. En óvissuþættirnir eru margir og meðal annars gætu launhækkanir í tengslum við komandi kjarasamninga ýtt undir verðbólgu sem síðan myndi kalla á hækkun vaxta. Almennt er þó talið að ákvörðunin í morgun komi til með að hafa góð áhrif á hlutabréfamarkaðinn hérlendis.

Ingólfur Bender hjá greiningardeild Glitnis segir að ákvörðunin sé í raun þess fallin að styrkja verð hlutabréfa. Hlutabréf hafi lækkað talsvert frá því að Seðlabankinn hækkaði vexti síðast. Í rauninni sé mjög gott að Seðlabankinn sé að horfa til stöðu fjármálamarkaðarins hvað þetta varðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×