Viðskipti innlent

Frjáls verslun velur Andra Má mann ársins í íslensku viðskiptalífi

MYND/GVA

Tímaritið frjáls verslun hefur valið Andra Má Ingólfsson, forstjóra og eigandi Primera Travel Group, mann ársins í íslensku atvinnulífi árið 2007.

Í tilkynningu frá tímaritinu segir að dómnefnd hafi valið hann vegna framúrskarandi árangurs hans við að stækka fyrirtækið, athafnasemi og djarflega framgöngu við yfirtökur á erlendum ferðaskrifstofum sem gert hafa fyrirtækið að þriðju stærstu ferðaskrifstofu á Norðurlöndunum.

„Andri Már er eini eigandi Primera Travel Group. Hann stofnaði Heimsferðir árið 1992 og flutti það ár um 1 þúsund farþega. Á þessu ári flytja tólf fyrirtæki í eigu Andra í sjö löndum yfir 1 milljón farþega til um 50 staða í heiminum, mest í beinu leiguflugi. Andri er með yfir 1.500 manns í vinnu. Velta Primera Travel Group verður um 60 milljarðar króna á þessu ári og hagnaður fyrir skatta tæpir 3 milljarðar króna," segir í tilkynningu Frjálsrar verslunar.

Andri á 80 prósent í flugfélaginu Jetx - Primera Air en það félag á fimm þotur, en verður með níu þotur á næsta ári, þar af tvær breiðþotur sem flytja munu farþega til fjarlægra áfangastaða. Þá á Andri fyrirtækið Heimshótel sem keypti gamla Eimskipafélagshúsið og breytti því í glæsilegt hótel. Þar er núna Hótel Radisson SAS 1919. Andri á húsnæðið en annast ekki reksturinn.

Verðlaunin verða afhent formlega í veislu sem Frjáls verslun heldur Andra til heiðurs í Súlnasal Hótel Sögu föstudaginn 28. desember nk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×