Viðskipti innlent

Glitnir telur að stýrivextir hafi náð hámarki

Líklegast munu frekari vaxtahækkanir ekki plaga landsmenn.
Líklegast munu frekari vaxtahækkanir ekki plaga landsmenn.

Greiningadeild Glitnis segir að sú ákvörðun Seðlabankans að hækka ekki stýrivexti í dag renni stoðum undir þá spá sína að bankinn muni ekki hækka vexti sína frekar.

Greiningadeildin spáir því að bankinn muni byrja að lækka vexti sína í júlí á næsta ári og vera með vexti sína í 12,5% í lok næsta árs. Seðlabankinn tekur næst ákvörðun um stýrivexti þann 14. febrúar næstkomandi og segir Greiningadeildin að óvissan um hana markist að miklu leyti af þeim skilyrðum sem verða á fjármálamörkuðum næstu vikurnar og niðurstöðu kjarasamninga.

Gengi krónunnar hefur lækkað í morgun um 0,6% gagnvart dollar og 0,2% gagnvart evru. Þá hefur ávöxtunarkrafa verðtryggðra skuldabréfa lækkað um 11-15 punkta en krafan á óverðtryggðu 7-17 punkta, mest á styttri endanum vegna aukinna væntinga um að vextir verði óbreyttir fram eftir næsta ári. Við teljum líklegt að um yfirskot sé að ræða og að kröfulækkunin nú muni ganga til baka á næstu dögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×