Viðskipti innlent

FL Group gerir ekki yfirtökutilboð í Inspired

MYND/Anton

FL Group hefur ákveðið að halda ekki áfram viðræðum við breska hugbúnaðarfyrirtækið Inspired Gaming Group um yfirtöku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Það hefur frá því í haust átt í viðræðum við Inspired um hugsanlega yfirtöku en segir að í ljósi núverandi markaðsaðstæðna hafi verið ákveðið að gera það ekki að svo stöddu.

FL Group á nú um 19 prósent í félaginu og hyggst áfrfam vinna með stjórn Inspired að vexti þess. Samkvæmt grein í breskum yfirtökulögum mun FL Group ekki vera heimilt að gera yfirtökutilboð í félagið á næstu sex mánuðum nema að verulegar breytingar verði á aðstæðum er tengjast Inspired og tilboði FL Group.

Inspired er með leiðandi stöðu í heiminum á sviði hugbúnaðarlausna fyrir tölvutengdar leikjavélar og hefur markaðsráðandi stöðu í leikjavélum fyrir afþreyingariðnaðinn í Bretlandi eftir því sem segir í tilkynningu FL Group

 

Miklar breytingar hafa orðið á FL Group að undanförnu í kjölfar slakra afkomutalna í lok þriðja ársfjórðungs. Hlutafé í félaginu var aukið um 64 milljarða fyrr í mánuðinum og Baugur varð stærsti hluthafinn í stað Hannesar Smárasonar.

Félagið hefur rifað segli á flugrekstrarmarkaði og hefur selt nánast allan sinn hlut í AMR, móðurfélagi bandaríska flugfélagsins American Airlines. Þá tilkynnti félagið í morgun að það hefði selt 11,7 prósent eða nærri helming hlutar síns í finnska flugfélaginu Finnair.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×