Viðskipti innlent

Erfitt að spá um gengi krónunnar vegna krónubréfa

Þróun krónubréfaútgáfu er einn stærsti óvissuþátturinn fyrir krónuna á næstu vikum - og geta áhrifin ýmist orðið til styrkingar eða veikingar.

Í umfjöllun Hálf fimm frétta Kaupþings um málið segir að krónubréf fyrir u.þ.b. 75 milljarðar króna eru á gjalddaga í janúar ef vaxtagreiðslur eru meðtaldar.

Síðustu mánuði hefur útgáfan að mestu leyti legið niðri og útgefendur að haldið að sér höndum. Ávallt þegar stórir gjalddagar eru í nánd vakna upp vangaveltur um hvort bréfunum verði yfir höfuð framlengt. Hingað til hafa stórir gjalddagar krónubréfa ekki haft teljandi áhrif á gjaldeyrismarkaði, en ávallt hefur stærstum hluta bréfanna verið framlengt eða ný gefin út í staðinn fyrir þau gömlu.

Í haust voru um 100 milljarðar kr á gjalddaga en mánuðina fyrir gjalddagana var stærstum hluta krónubréfanna framlengt. Sama þróun hefur ekki átt sér stað nú sem má væntanlega rekja til þess óróa sem er á alþjóðamörkuðum þessa dagana - en krónubréf eru í eðli sínu áhættusöm fjárfesting vegna gengisáhættu bréfanna.

Má því ætla að minni áhugi sé hjá fjárfestum til að kaupa þau nú sem gerir útgefendum bréfanna erfiðara fyrir. Að mati Greiningardeildar munu erlendir aðilar bíða átekta fram yfir vaxtaákvörðunarfund Seðlabankans og jafnvel eitthvað fram yfir áramót í þeirri von um að öldurnar lægi á alþjóðamörkuðum. Í ljósi mikils vaxtamunar við útlönd og hárra vaxta mun útgáfan áfram verða freistandi fjárfestingarkostur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×