Fótbolti

Messi bestur að mati Eiðs Smára

NordicPhotos/GettyImages

Menn voru langt frá því að vera sammála í gær þegar birtir voru atkvæðaseðlar fyrirliða og landsliðsþjálfara í valinu á leikmanni ársins hjá FIFA.

Eiður Smári Guðjohnsen og Eyjólfur Sverrisson, fyrrum landsliðsþjálfari, voru reyndar á svipuðum nótum þegar þeir völdu þrjá bestu.

Eins og flestir vita var það Brasilíumaðurinn Kaka sem var valinn leikmaður ársins, Argentínumaðurinn Leo Messi í öðru og Portúgalinn Cristiano Ronaldo hjá Manchester United í þriðja sæti.

Eiður Smári Guðjohnsen var skiljanlega ánægður með frammistöðu hins unga félaga síns Leo Messi hjá Barcelona og setti hann í fyrsta sætið. Hann setti Ronaldo í annað sæti og Kaka í þriðja.

Eyjólfur Sverrisson var hinsvegar með Kaka í fyrsta sæti, Ronaldo í öðru og Messi í þriðja, sem er nokkuð í takt við niðurstöðu kjörsins.

John Terry, fyrirliði enska landsliðsins, var hinsvegar nokkuð á skjön við aðra. Hann valdi að vísu Messi inn á topp 3, en hann tók félaga sína Didier Drogba og Petr Cech fram yfir þá Kaka og Ronaldo.

Þá var Steve McClaren fyrrum landsliðsþjálfari Englendinga líka með áhugavert nafn á sínum lista, en þar valdi hann Ítalann Gennaro Gattuso ásamt þeim Kaka og Ronaldo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×