Innlent

Verðmæti brottkasts á þorski og ýsu 700 milljónir kr. á ári

Verðmæti brottkasts á þorski og ýsu á síðustu árum nam um 700 milljónum kr. að meðaltali á ári. Þetta kemur m.a. fram í nýju riti Hafrannsóknarstofunnar um brottkastið. Ef tekið er tímabilið frá 2001 til 2006 nemur verðmæti þorsks og ýsu sem hent var yfir fjórum milljörðum kr.

Í greininni er lýst helstu niðurstöðum mælinga á brottkasti botnfiska, sem fram fóru árið 2006. Mælingar á brottkasti beindust einkum að þorsk- og ýsuveiðum í helstu veiðarfæri, en einnig að ufsa og gullkarfa í botnvörpuveiðum og skarkola í dragnótaveiðum.

Mælingar á öðrum tegundum voru ekki nægilega umfangsmiklar til að meta brottkast með viðunandi hætti. Brottkast þorsks var 2754 tonn eða 1.45% af lönduðum afla, og er það næst hæsta gildi tímabilsins 2001-2006. Miðað að við leiguverð á þorskkílóinu sé 220 kr. var þorsk fyrir 600 milljónir hent aftur í sjóinn í fyrra.

Brottkast ýsu var 2452 tonn eða 2.60% af lönduðum afla, eða um helmingur brottkastsins árið 2005, og nokkru minna en meðalbrottkast 2001-2006. Miðað að við leiguverð á ýsukílóinu sé 40 kr. var ýsu fyrir rétt tæpar 100 milljónir kr. hent aftur í sjóinn þetta ár.

Árlegt meðalbrottkast þorsks tímabilið 2001-2006 var 2192 tonn eða 1.11%. Meðalbrottkast ýsu var 2759 tonn eða 4.12%. Samanlagt brottkast þorsks og ýsu var 5206 tonn árið 2006, en að jafnaði 4951 tonn 2001-2006, eða 1.83% af lönduðum afla þessara tegunda. Ef verðmætið er framreiknað miðað við fyrrgreind leiguverð hefur þorski og ýsu fyrir yfir fjóra milljarða kr. verið hent í sjóinn.

Í fiskum talið var brottkast þorsks 2001-2006 um 1.9 millj. fiska að jafnaði eða 2.88% af meðalfjölda landaðra fiska, en brottkast ýsu var um 4.3 millj. fiska eða 9.23%. Samanlagt brottkast þessara tegunda var því um 6.2 millj. fiska á ári að jafnaði 2001-2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×