Viðskipti innlent

FME hafnar umsókn FL Group og Jötuns Holding

Jónas Fr. Jónasson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og hans fólk hefur lagt blátt bann við sameiginlegu forræði FL Group og Jötunn Holding yfir rétt tæplega 40% hlut í Glitni.
Jónas Fr. Jónasson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, og hans fólk hefur lagt blátt bann við sameiginlegu forræði FL Group og Jötunn Holding yfir rétt tæplega 40% hlut í Glitni.

Fjármálaeftirlitið hefur hafnað umsókn FL Group og Jötunn Holding um heimild til að fara með allt að 39,9% eignarhlut í Glitni.

Heimild FL Group til að fara með allt að 33% eignarhlut í bankanum stendur óbreytt og hefur ákvörðun Fjármálaeftirlitsins ekki áhrif á þá yfirlýstu stefnu félagsins um að vera langtíma kjölfestufjárfestir í Glitni eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá félaginu. Núverandi eignarhlutur FL Group í Glitni er 31,97%.

Samkvæmt yfirlýsingu Jötun Holdings, sem send var FL Group í dag, segir m.a. að félagið hafi afsalað sér atkvæðisrétti sínum í bankanum og hefur án aðkomu FL Group hafið viðræður við FME um næstu skref, sem m.a. getur falið í sér minnkun á eignarhlut Jötuns í bankanum.

Samhliða framangreindu ferli hyggjast eigendur Jötuns skoða mögulega skiptingu eignarhluta félagsins í Glitni á milli sín, en eignarhlutur einstakra hlutahafa verður eftir sem áður án atkvæðisréttar. Eignarhlutur Jötuns Holding í bankanum er 6,85% og er félagið í eigu Baugs Group, Fons og West Coast Capital. Baugur Group er annar stærsti hluthafi FL Group og verður væntanlega sá stærsti eftir hluthafafund á morgun en Fons er í meirihlutaeigu Pálma Haraldssonar sem keypti nýverið tæp 7% í félaginu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×