Körfubolti

Jón Halldór: Keflvíkingar sætta sig ekki við 2. sæti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jón Halldór tekur við viðurkenningu sinni frá Matthíasi Imsland, framkvæmdarstjóra Iceland Express.
Jón Halldór tekur við viðurkenningu sinni frá Matthíasi Imsland, framkvæmdarstjóra Iceland Express. Mynd/E. Stefán

Jón Halldór Eðvarðsson var í dag útnefndur besti þjálfarinn í fyrstu níu umferðunum í Iceland Express deild kvenna.

Jón Halldór er þjálfari Keflavíkur sem er á toppi deildarinnar með átján stig eftir tíu leiki. Liðið hefur því unnið alla leiki sína nema einn þar sem Grindavík vann Keflavík á heimavelli í næstsíðustu umferð.

Keflavík átti þrjá leikmenn í liði umferðanna og segir Jón Halldór að hann hefði helst að allir í liðinu væru Keflvíkingar.

„En þetta er auðvitað frábær árangur," sagði hann. „Þetta tímabil hefur bæði verið gott og slæmt fyrir okkur. Við höfum verið að spila frábæran körfubolta og leikmenn hafa unnið afar vel á æfingum sem hefur skilað sér í leikina. En á móti kemur að við misstum fjóra af fimm byrjunarliðsmönnum frá síðasta tímabili en það hefur þó ekki komið að sök."

Bæði karla- og kvennalið Keflavíkur eru á toppi sinna deilda en karlaliðið hefur unnið alla sína níu leiki til þessa.

„Hvorugt lið gerði nokkurn skapaðan hlut á síðasta tímabili," sagði Jón Halldór. „Keflavík er stærsti körfuboltaklúbbur landsins, að minnsta kosti hvað iðkendafjölda varðar. Menn sætta sig ekkert við það að lenda í öðru sæti enda man enginn hver lenti í öðru sæti. Það eru allir í Keflavík samstilltir um að vinna alla titla."

En þó svo að Keflavík eigi marga góða leikmenn segir Jón Halldór að liðsheildin sé mikilvægust. „Sterkir leikmenn vinna kannski einstaka leiki en aldrei titla. Lið vinna titla vegna góðrar liðsheildar og ég tel að Keflavík sé með mjög sterka liðsheild."

Jón Halldór segir einnig að tapið í Grindavík hafi komið sér á óvart.

„Já, ég verð að segja það alveg eins og er. En þetta var einn af þessum leikjum þar sem við hittum afar illa. Skotnýting okkar í þriggja stiga skotum var 14,1% og við klikkuðum einnig á fjórtán vítaköstum. En þrátt fyrir það töpuðum við með tveggja stiga mun í framlengingu."

„Einbeitingin var einfaldlega ekki til staðar og mun það ekki gerast aftur í vetur."

Í næsta leik unnu Keflvíkingar góðan og öruggan sigur á Íslandsmeisturum Hauka sem eru í þriðja sæti deildarinnar en Grindavík er í því fjórða.

„Við þurfum að sýna í hvert einasta skipti sem við spilum að við ætlum okkur að vinna. Eftir tapið þurftum við að koma til baka með stæl og gerðum við það."

Á morgun verður sannkallaður toppslagur í deildinni þar sem efstu tvö liðin, Keflavik og KR, mætast. Ef KR vinnur verða liðin jöfn að stigum en ef Keflavík vinnur verður liðið með fjögurra stiga forskot á toppnum. Jón Halldór vill þó ekki meina að þar með sé liðið stungið af.

„Ég veit það nú ekki. Ef það verður talað um það verður það vegna þess eitthvað vonleysi grípur um sig í hinum liðunum."

Efri röð frá vinstri: Monique Martin, KR, Kristrún Sigurjónsdóttir, Haukum, Margrét Kara Sturludóttir, Keflavík. Neðri röð frá vinstri: TaKesha Watson, Keflavík og Pálína Gunnlaugsdóttir, Keflavík.Mynd/E. Stefán
Jón Halldór Eðvarsson, þjálfari Keflavíkur, tekur við viðurkenningu sinni frá Matthíasi Imsland, framkvæmdarstjóra Iceland Express.Mynd/E. Stefán
TaKesha Watson, leikmaður Keflavíkur, með verðlaunin sín.Mynd/E. Stefán
Pálína Gunnlaugsdóttir, Keflavík og Matthías Imsland, framkvæmdarstjóri Iceland Express.Mynd/E. Stefán
Hannes Jónsson formaður KKÍ færir Margréti Köru Sturludóttur viðurkenningu sína.Mynd/E. Stefán
Kristrún Sigurjónsdóttir, Haukum, var valin í lið umferðanna.Mynd/E. Stefán
Monique Martin var eini leikmaður KR í liði umferðanna. Hér fær hún viðurkenningu sína frá Hannesi Jónssyni, formanni KKÍ.Mynd/E. Stefán
TaKesha Watson fær hér viðurkenningu sína fyrir að vera í liði umferðanna frá Hannesi Jónssyni, formanni KKÍ.Mynd/E. Stefán

Tengdar fréttir

TaKesha Watson valin best

TaKesha Watson, leikmaður Keflavíkur, var í dag valin besti leikmaður fyrstu níu umferðanna í Iceland Express-deild kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×