Viðskipti innlent

Baugur staðfestir orðróm um áhuga á Moss Bros

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson

Baugur Group sendi í dag tilkynningu til kauphallarinnar í London þar sem félagið staðfestir þann orðróm að félagið sé að kanna möguleika sína á því að taka yfir Moss Bros Group með hliðsjón af óbeinum eignarhlut sínum í félaginu. Þetta kemur fram í Hálf-fimm fréttum Kaupþings.

Baugur á í félagi við FL Group og Kevin Stanford um 28,5% hlut í Moss Bros Group . Hinsvegar er tekið fram að þessi tilkynning sé þó á engan hátt yfirlýsing um einlægan ásetning félagsins til þess að gera tilboð í allt hlutafé félagsins og óvíst að nokkurt tilboð verði gert.

Rekstur Moss Bros hefur gengið illa

Moss Bros Group á og rekur um 150 búðir vítt og breitt um Bretland sem selja einkum fatnað undir vörumerkjunum Hugo Boss og Canali. Rekstur félagsins hefur ekki gengið sem skyldi á þessu ári og nú síðast þann 5. desember sendi félagið frá sér afkomuviðvörun þar sem fram kom að félagið ætti ekki von á því að ná þeirri afkomu sem markaðsaðilar væru almennt að spá fyrir félagið. Sala félagsins á síðari hluta ársins fram til 8. desember hefur verið 1,5% minni en á sama tíma í fyrra. Í framhaldi af þessari afkomuviðvörun í síðustu viku féllu bréf félagsins í kauphöllinni í London um 13% eða niður í 33 pens á hlut.

Gengið hefur hækkað um 22,15% í dag

Í dag hefur gengi félagsins hækkað um 22,15% eða úr 37,25 pensum á hlut upp í 45,5 pens á hlut og er markaðsvirði félagsins við lokun markaðar um 42,5 milljónir punda eða (5,4 milljarðar króna). Gengi bréfa félagsins hefur lækkað mikið það sem af er ári en hæst fór gengið í 77,5 pens á hlut (í byrjun árs) en lægst í 33 pens nú í síðustu viku í kjölfar afkomuviðvörunar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×