Vélasvið Heklu afhenti Fossvélum á Selfossi risajarðýtu af gerðinni Caterpillar D11R á starfssvæði Fossvéla við Ingólfsfjall á föstudaginn var. Þetta er önnur jarðýtan af þessari gerð sem selst hér á landi á þessu ári. Að jafnaði selur Caterpillar aðeins þrjár til fjórar svona vélar á ári í Evrópu, þannig að sala á tveimur vélum til Íslands á einu og sama árinu þykir tíðindum sæta.
„Ýtan nýja boðar gjörbyltingu í allri okkar starfsemi og hentar afskaplega vel," segir Magnús Ólason, framkvæmdastjóri Fossvéla í fréttatilkynningu frá Heklu. Fyrirtækið er fyrst og fremst í efnisvinnslu og hefur meðal annars rekið svonefnda Þórustaðanámu í Ingólfsfjall í rúm 30 ár. Þar verður Skessan notuð við að ryðja efni ofan af fjallsbrúnni og niður hamrastálið, sem er vel á þriðja hundrað metra.
Skessan er samtals 117 tonn að þyngd og með 935 hestafla vél. Hún er rúmlega fimm metrar á hæð með veltibogum og 2,6 metrar eru frá jörðu upp í efri brún á beltagangi. Tönnin framan á þessu tröllvaxna tæki er 19 tonn, sex metra breið og þriggja metra há og getur rutt á undan sér rúmlega 34 rúmmetrum af jarðvegi.
„Þetta er stærsta jarðýtan sem Caterpillar framleiðir og nákvæmlega eins og vélin sem er nú að störfum í Vatnsskarðsnámum við Krýsuvík," segir Ásmundur Jónsson, framkvæmdastjóri Vélasviðs HEKLU. „Það er jafnframt einsdæmi að tvær svona vélar séu seldar sama árið til lítils lands eins og Íslands, enda voru forsvarsmenn Caterpillar vægast sagt undrandi þegar seinni pöntunin barst frá okkur."
Fossvélar ehf., sem er í eigu Kára Jónssonar og fjölskyldu, var stofnað árið 1971 og eru starfsmenn 15 talsins. Fyrirtækið er fyrst og fremst í námurekstri og efnisvinnslu og nýtir til þess sjö grjótmulningsvélar/hörpur og 20 vinnuvélar - og þar af erum 15 þeirra frá Caterpillar.