Innlent

Samþykki Alþingis þarf fyrir framsali vatnsréttinda í Þjórsá

Virkjanaundirbúningur Landsvirkjunar í Þjórsá er í uppnámi eftir að Ríkisendurskoðun komst að þeirri niðurstöðu að umdeilt framsal ráðherra síðustu ríkisstjórnar á vatnsréttindum til Landsvirkjunar, þremur dögum fyrir kosningar, hefði þurft samþykki Alþingis.

Það var ekki fyrr en Stöð tvö greindi frá málinu síðla sumars að hulunni var svipt af samningnum sem þrír ráðherrar fyrrverandi ríkisstjórnar undirrituðu, þeir Árni M. Mathiesen, Jón Sigurðsson og Guðni Ágústsson. Með honum framseldi ríkið vatns- og landsréttindi sín við neðri Þjórsá til Landsvirkjunar. Þingflokkur Vinstri grænna brást hart við og krafðist þess að leiðar yrði álits Ríkisendurskoðunar á gerningnum, sem nú hefur komist að þeirri niðurstöðu sú að afla beri sérstakrar lagaheimildar til framsals á vatnsréttindunum í Þjórsá. Ríkisendurskoðun blæs einnig á allar mótbárur viðkomandi ráðuneyta um að samkomulagið umdeilda við Landsvirkjun hafi ekki falið í sér ráðstöfun á eignarréttindum ríkisins, og telur að þurft hefði að setja fyrirvara um samþykki Alþingis. Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna telur þetta þýða að allir þeir samningar sem Landsvirkjun hafi gert og reynt að gera í krafti framsalsins séu að engu orðnir. Hún telur jafnframt að Landsvirkjun geti ekki haldið áfram, eins og ekkert hafi í skorist.

Frirðik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, kvaðst í samtali við stöð tvö í dag þurfa að skoða málið betur áður en hann vildi tjá sig. Álfheiður segir hins vegar að í stað þess að Landsvirkjun hafi 93 prósent vatnsréttindanna séu nú öll vopn höndum heimamanna. Dæmið hafi snúist við þeim í hag. Þeir hafi nú sjö prósent réttindanna en Landsvirkjun engin réttindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×