Viðskipti innlent

Sumar eignir Baugs í Bretlandi hafa rýrnað um helming

Við skoðun á fjárfestingum Baugs í Bretlandi kemur í ljós að sumar eignirnar hafa rýrnað um helming frá áramótum. Á þetta einkum við um verslunarkeðjur þær sem Baugur Group er hluthafi í.

Fjallað var um Baug í breskum fjölmiðlum í gær og dönku blöðin taka upp þá umræðu í dag. Í Jyllandsposten er meðal annars greint frá því að Baugur þurfi sárlega á góðri jólaverslun að halda í Bretlandi en hinsvegar séu teikn á lofti um að verslunin verði undir meðallagi. Af þeim sökum féllu hlutabréf í Debenhams um 5 prósent í gær.

Helstu eignir Baugs í verslunargeiranum breska eru auk 13 prósenta af Debenhams, 10 prósent í Woolworth, 57 prósent í French Connection og 28 prósent í Moss Brothers. Lækkandi gengi í þessum félögum á árinu hefur kostað Baug um 150 milljónir punda að sögn Jyllands Posten eða um 18 milljarða króna.

Jyllands Posten segir að Baugur verði einnig að vonast eftir góðri jólaverslun í Danmörku það er í Illum, Magasin du Nord og Merlin. Blaðið ræðir við Söru Lind, fjölmiðlafulltrúa Baugs, sem telur ekki að félagið sé aðþrengt fjárhagslega. Þvert á móti séu fjárfestingar Baugs gerðar með langtímamarkmið í huga og að fallið á hlutabréfamarkaðinum opni nýja möguleika fyrir Baug.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×