Viðskipti innlent

„Baugur ekki að bjarga okkur“

Jón Sigurðsson forstjóri FL Group var í hádegisviðtalinu á Stöð 2 rétt í þessu. Þar var hann meðal annars spurður hvort Baugur hefði komið fyrirtækinu til bjargar.

„Baugur er ekki að koma til að bjarga okkur. Þetta er fyrst og fremst tækifæri fyrir FL Group og við vorum búnir að skoða marga möguleika að undanförnu og teljum þetta vera hagkvæmast fyrir alla hluthafa félagsins," sagði Jón við Sindra Sindrason í hádeginu.

Jón vildi ekki meina að eitthvað hefði farið úrskeiðis hjá félaginu og sagði þvert á móti að félagið hefði verið að verjast ágætlega á erfiðum markaði. Hann sagði einnig að ákveðinn misskilningur hefði verið um FL Group að undanförnu og nefndi til dæmis að eigið fé félagsins hefði verið 115 milljarðar fyrir aðgerðir gærdagsins. Nú er það komið upp í 180 milljarða og vonar Jón að félagið styrkist og nái að sanna hvað í því búi.

Jón var einnig spurður að því hvort félagið hefði farið of glannalega undanfarið. „Ég held ekki. Það má auðvitað alltaf vera vitur eftir á en ég tel að þær ákvarðanir sem hafa verið teknir hafi verið réttar á þeim tíma. En eftir á að hyggja hefðum við kannski átt að fara aðeins hægar yfir," sagð Jón.

Hann sagði það ekki hafa verið í myndinni að taka félagið af markaði né að leysa það upp. Jón sagði einnig að félagið hefði aldrei verið öflugra og tækifærin væru mjög mikil. „Við erum nú með mikið og sterkt eignasafn og skýra framtíðarsýn. Við erum einnig að byggja fyrirtækið upp á alþjóðavettvangi og erum að sanna okkur á því sviði. Þetta er eitthvað sem við vonum að fjárfestar hafi áhuga á."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×