Viðskipti innlent

Stærstu hluthafar eru tólf milljarða í mínus

Þorsteinn M. Jónsson (til vinstri) og Hannes Smárason (til hægri) væru í vondum málum ef þeir þyrftu að selja bréf sín í FL Group á hlutafjáraukningagenginu 14,7.
Þorsteinn M. Jónsson (til vinstri) og Hannes Smárason (til hægri) væru í vondum málum ef þeir þyrftu að selja bréf sín í FL Group á hlutafjáraukningagenginu 14,7.

Ef þrír af fjórum stærstu hluthöfum FL Group seldu hluti sína í félaginu nú á gengi nýrrar hlutafjáraukningar 14,7 myndu þeir vera tæpa tólf milljarða í mínus. Hannes Smárason, Gnúpur og félagarnir Magnús Ármann og Þorsteinn M. Jónsson væru í virkilega vondum málum ef markaðurinn myndi meta gengi félagsins á sama hátt og gert var í hlutafjáraukningunni.

Hannes Smárason hefur keypt bréf í FL Group fyrir 33,2 milljarða. Fyrstu kaupin hans voru fyrir 7,1 milljarða á genginu 9,6 þegar hlut hans og þáverandi tengdaföður hans, Jóns Helga Guðmundssonar einatt kenndum við Byko, var skipt upp. Dýrustu kaup hans voru nú í ágúst þegar hann keypti fyrir tvo milljarða á genginu 26,146. Ef Hannes seldi allt sitt á genginu 14,7 myndi hann fá 30,2 milljarða fyrir. Það myndi þýða að hann væri þrjá milljarða í mínus og er þá ótalinn fjármagnskostnaður vegna veðskulda.

Gnúpur fjárfestingafélag, sem er í eigu Magnúsar Kristinssonar (46,5%), Kristins Björnssonar (46,5%) og Þórðar Más Jóhannessonar (7%), kom inn í FL Group í ágúst á síðasta ári þegar þeir fengu bréf í félaginu í skiptum fyrir hlut þeirra í Straumi-Burðarási. Bréfin fengu Gnúpsmenn á genginu 18,52 að verðmæti 29,6 milljarða. Ef þeir myndi selja bréfin í dag á hlutafjáraukningagenginu 14,7 myndi þeir aðeins fá 23,5 milljarða sem þýðir að þeir yrði 6,1 milljarð í mínus.

Materia Invest, sem er í jafnri eigu Magnúsar Ármanns, Þorsteins M. Jónssonar og Kevins Stanford, hefur keypt bréf í félaginu fyrir 18,3 milljarða síðan 10. ágúst 2005. Ef þessi bréf yrðu seld í dag á genginu 14,7 fengjust aðeins 15,6 milljarðar sem þýðir að þeir félagar væru 2,7 milljarða í mínus.

Heimildir Vísis herma að Hannes og Materia Invest muni selja hluta af bréfum sínum á næstu dögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×