Innlent

Klórleki alltaf alvarlegur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni.

Tryggvi Þórðarson, vatnavistfræðingur hjá rannsókna- og fræðasetri Háskóla Íslands í Hveragerði, segist lítið geta tjáð sig um það hvaða áhrif klórlekinn í Varmá geti haft á vistkerfið í ánni en áhrif slyssins verði rannsökuð á næstu dögum. Talið er að allt að 800 lítrar af klór hafi lekið í Varmá síðastliðinn föstudag þegar geymir lak. Tryggvi bendir á að sambærilegt slys hafi orðið árið 1994 þegar klór úr Árbæjarlaug lak í Elliðaárnar. „Þá varð talsverður seyðadauði og ánadauði á afmörkuðum hluta árinnar," segir hann. Tryggvi telur þó að mun meiri klór hafi lekið í Varmá nú en lak í Elliðaárnar á sínum tíma.

Jón S. Ólafsson, líffræðingur hjá Veiðimálastofnun, segir að klórlekar séu alltaf alvarlegir. „Þetta gæti þó hafa verið verra, til dæmis ef olía hefði lekið í ána," segir Jón. Hann segir að ef vistkerfi árinnar sé undir miklu álagi eins og hafi verið í tilfelli Elliðaánna og um sé að ræða síendurtekna atburði geti klórlekar haft skelfilegar afleiðingar. „Ef það væru til dæmis nokkrir lítrar að leka vikulega væri þetta mjög alvarlegt. Þegar um er að ræða eitt einangrað tilfelli þarf þetta ekki að verða eins alvarlegt," segir Jón. Hann segir að búast megi við því að þörungar, sniglar og smálífverur sem ekki geti fært sig úr stað drepist. „En seyðin geta fært sig úr stað og drepast því síður," segir Jón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×