Innlent

Ráðherra kynnti sér barnaklámseftirlit í Noregi

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra. MYND/Pjetur

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, sat í dag fund með kollegum sínum frá Noregi og Finnlandi, í höfuðstöðvum norsku rannsóknarlögreglunnar, KRIPOS, í Ósló. Auk ráðherranna tóku yfirmenn norsku lögreglunnar og norrænir embættismenn, þátt í fundinum. Knut Storberget, dómsmálaráðherra Noregs bauð til ráðherrafundarins í því skyni að kynna ráðherrunum frá fyrstu hendi hvernig KRIPOS stundar eftirlit með barnaklámi á netinu. Norðmenn hafa verið brautryðjendur í norrænu samstarfi á þessu sviði og hafa lagt á ráðin um formlegt norrænt lögreglusamstarf um netvörslu í þágu barna og ungmenna.

„Þá kynnti norski ráðherrann reynslu Norðmanna af sérstöku hegningarlagaákvæði gegn nettælingu gagnvart börnum eða því, sem nefnt er „grooming" á alþjóðamáli," segir í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu. Þar segir einnig að fram hafi komið að erfitt getur verið fyrir lögreglu að beita nettælingarákvæðinu í framkvæmd.

Danir og Íslendingar greindu frá því á fundinum, að því er fram kemur í tilkynningunni, að hjá þeim yrði látið reyna á tilraunaákvæði almennra hegningarlaga í tilvikum sem þessum, en þau eru víðtækari en í norskum lögum. „Þess er beðið hér á landi, að hæstiréttur felli dóma í málum, sem kunna að gefa til kynna hvernig rétturinn lítur á tilraunaákvæðið í þessu sambandi."

Þá kom fram að á fundinum hafi verið lýst áhuga á því að nýta sér reynslu Norðmanna af svonefndri „Virtuell politistasjon" eftir því sem lög einstakra landa leyfðu. Aðeins er unnt að halda uppi eftirliti og síu lögreglu á netinu í náinni samvinnu við netþjónustuaðila. Hér á landi hefur embætti ríkislögreglustjóra stofnað til slíks samstarfs. Norrænn gagnagrunnur í samvinnu við gagnagrunna Europol og Interpol er talinn geta auðveldað þetta forvarna- eða eftirlitsstarf lögreglu.

Norsku lögregluforingjarnir sögðu, að með netsíðusíum og svonefndum stopp-síðum væri unnt að ná verulegum árangri í baráttunni við netvædda barnaníðinga. Þá var það einnig mat þeirra, að umfang þessarar starfsemi í netheimum væri innan þeirra marka, að unnt væri að halda henni í skefjum með viðeigandi gagnráðstöfunum, sem hlytu að byggjast á víðtæku alþjóðlegu samstarfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×