Viðskipti innlent

Álag á skuldatryggingar heldur áfram að falla

Álag á skuldatryggingar íslensku viðskiptabankanna heldur áfram að falla og á þeirri viku sem liðin er síðan að Kaupþing tilkynnti um lok fjármögnunar á hollenska bankanum NIBC hefur álag íslensku bankanna fallið um rúmlega um 100 púnkta að meðaltali.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Glitnis og þar segir að tryggingaálag Kaupþings er nú 250 pkt. en fór hæst upp í 370 pkt. og hefur því fallið um 120 pkt á einni viku. Álag Landsbankans er nú í 110 pkt. samanborið við 175 pkt. á mánudaginn fyrir viku síðan og hefur því fallið um 65 pkt. Álag Glitnis hefur hlutfallslega lækkað mest og stendur nú í 140 punktum sem er 130 punktum minna en fyrir viku síðan þegar álagið var komið upp í 270 pkt.

Þrátt fyrir að skuldatryggingarálag fjármálafyrirtækja hafi almennt farið hækkandi í heiminum frá því í sumar eru flestir á því að álag íslensku viðskiptabankanna hafi hlutfallslega hækkað meira en tilefni er til undanfarnar vikur, sér í lagi í samanburði við önnur fjármálafyrirtæki af svipaðri stærð og gerð. Þrátt fyrir lækkun undanfarinna daga eru íslensku bankarnir enn óravegu frá því að komast á sömu slóðir og í sumarbyrjun, áður en áhrifa lausafjárkreppunnar fór að gæta.

Þann fyrsta júní síðastliðinn stóð álag Kaupþings í 29 pkt, Landsbankans í 19 pkt og Glitnis í 24 pkt. Ólíklegt er þó að álagið verði svo lágt að nýju á næstunni, þar sem verðlagning áhættu hefur breyst í kjölfar óróans á haustdögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×