Viðskipti innlent

Rúmlega helmingur tekna bankanna erlendis frá

Um 54 prósent tekna íslensku viðskiptabankanna á fyrri hluta ársins kom erlendis frá samkvæmt hálfs árs uppgjöri þeirra. Þá mátti rekja 45 prósent heildareigna bankanna til erlendra dótturfélaga og um helmingur starfsmanna bankanna starfaði í útlöndum.

Frá þessu er greint á vef Fjármálaeftirlitsins og bent á þessi auknu umsvif íslenskra fjármálafyrirtækja hafi töluverð áhrif á starfsemi Fjármálaeftirlitsins og ljóst sé að umsvif íslenskra fjármálafyrirtækja erlendis hafi vaxið enn frekar á þessu ári.

Bent er á að útrás bankanna innan EES byggist á starfsleyfum frá Fjármálaeftirlitinu og evrópskar eftirlitsstofnanir treysti þannig á skilvirkni og sjálfstæði íslenska eftirlitsaðilans. Þegar um útrás til landa utan EES er að ræða þurfa fyrirtækin yfirleitt að sækja um sérstakt leyfi hjá eftirlitsaðila í viðkomandi ríki. Engu að síður leita erlendir eftirlitsaðilar nær undantekningarlaust eftir upplýsingum hjá Fjármálaeftirlitinu um starfsemi og framferði viðkomandi fyrirtækja á Íslandi.

Þá segir á vef Fjármálaeftirlitsins að íslensk fjármálafyrirtæki hafi tilkynnt eftirlitinu um 56 starfseiningar í 21 landi en þær voru 26 í tólf löndum í árslok 2005. Hefur starfseiningum fyrirtækjanna þannig fjölgað um helming á innan við tveimur árum. Þá eru fleiri erlendar starfseiningar í burðarliðnum.

 

Meðal þess sem Fjármálaeftirlitið sinnir vegna aukinna umsvifa íslenskra fjármálafyrirtækja er að heimsækja útibú þeirra í útlöndum og taka þau út á tveggja ára fresti og þá verður fundað reglulega með eftirlitsstofnunum í þeim ríkjum þar sem íslensk fyrirtæki eru með umsvif. Þá stefnir FME að gerð samstarfssamninga við eftirlitsaðila í ríkjum utan EES í takt við aukna útrás íslenskra fjármálafyrirtækja inn á nýja markaði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×