Viðskipti innlent

Saga Film hluti af fjölþjóðlegu fyrirtæki

MYND/Teitur

Saga Film, sem heyrt hefur undir 365 hf, verður hluti af fjölþjóðlegu fyrirtæki sem framleiða mun auglýsingar og sjónvarpsefni og stýra ýmiss konar viðburðum. Saga Film sameinast félaginu European Film Group A/S sem Baugur keypti nýverið og mun hið nýja félag bera nafnið European film Group ehf.

Það verður með starfsemi í sjö löndum í Evrópu. Eftir því sem segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands eignast 365 63 prósent í hinu nýja félagi en Baugur, sem átt hefur 13 prósent í Saga Film, fær 37 prósent í hinu nýja félagi. Öll dótturfélög European Film Group verða rekin sem sjálfstæðar einingar og verða starfsstöðvar á Íslandi, í Skandinavíu, Tékklandi og í Bretlandi. Reiknað er með að velta fyrirtækjanna verði um 3,5 milljarðar króna á ári.

Haft er eftir Ara Edwald, forstjóra 365, að með hinu nýja félagi muni Saga Film verða sjálfstæðari gagnvart 365. Bent er á Saga Film hafi haft breiðari starfsemi en erlendu félögin, meðal annars á sviði viðburðastjórnunar og þjónustu við kvikmyndagerð.

Það felist mikil tækifæri til að auka virði hins nýja félags með því að breikka þjónustuframboð flestra félaganna. Vel hafi gengið hjá Saga Film að koma á fót viðburðastjórnun hjá dótturfélagi sínu í Bretlandi, 2AM, og hafa íslensk fyrirtæki nýtt sér þjónustu þess. Auk þess skapi breytingarnar tækifæri til samvinnu í framleiðslu auglýsinga- og sjónvarpsefnis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×