Viðskipti innlent

Nefnd fari yfir lög um sparisjóði

MYND/Pjetur

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur ákveðið að skipa nefnd til þess að fara yfir gildandi lagaumhverfi sparisjóðanna og gera tillögur til breytinga eftir því sem þörf er á.

Bent er á í tilkynningu frá viðskiptaráðuneytinu að nokkur umræða hafi verið um lagaákvæði sem snúi að sparisjóðunum og að þau hafi ekki virkað sem skyldi, meðal annars þau ákvæði sem heimila breytingu sparisjóðs í hlutafélag, viðskipti með stofnfjárhluti og útgáfu nýs stofnfjár. Nefndinni sé ætlað að tryggja að lagaumhverfi sparisjóðanna verði ekki þessum fjármálafyrirtækjum hamlandi í ört vaxandi samkeppni á fjármálamarkaði.

Hefur viðskiptaráðuneytið óskað eftir tilnefningum í nefndina meðal annars frá Fjármálaeftirlitinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum fjármálafyrirtækja. Til þessa hefur aðeins verið samþykkt að breyta einum sparisjóð í hlutafélag, Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×