Viðskipti innlent

Raunávöxtun Gildis 17,6 prósent





Hrein raunávöxtun Gildis-lífeyrissjóðs á ársgrundvelli fyrstu sex mánuði ársins var 17,6% og nafnávöxtun 23,9%. Fjárfestingartekjur á tímabilinu námu 23,5 milljörðum króna og voru 7,7 milljörðum hærri en á sama tímabili í fyrra.  

Í tilkynningu frá Gildi segir að þessa góðu afkomu megi einkum rekja til góðrar ávöxtunar á innlendum hlutabréfum sjóðsins, sem skiluðu 69% raunávöxtun á ársgrundvelli.  Innlend skuldabréf gáfu 4,2% raunávöxtun og erlend verðbréf  1,2% raunávöxtun í krónum talið.  

Hrein eign Gildis til greiðslu lífeyris nam rúmum 240 milljörðum króna í lok júní og hefur hækkað um rúma 25 milljarða frá ársbyrjun.  Eignir sjóðsins skiptast þannig að 44% eru í innlendum skuldabréfum, 29% í innlendum hlutabréfum og 27% í erlendum verðbréfum.

Iðgjöld til sjóðsins voru 4,8 milljarðar króna fyrstu 6 mánuði ársins og hækkuðu um um 26% frá fyrra ári.  Greiddur lífeyrir nam 2,9 milljörðum og hækkaði um 21% á milli ára, en réttindi lífeyrisþega hjá Gildi voru hækkuð um 10% 1. janúar 2007 og hafa því samtals verið hækkuð um 17,7% á sl. 2 árum.

Í tilkynningunni segir einnig að staða sjóðsins sé sterk, fjármagnstekjur sjóðsins hafa lítið breyst frá milliuppgjöri þrátt fyrir óróleika á fjármálamörkuðum. Fjárfestingarstefna sjóðsins geri ráð fyrir sveiflum á markaði, enda sé sjóðurinn langtímafjárfestir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×